Categories
Fréttir

80 milljarða fjárfestingu stefnt í voða

Deila grein

02/09/2016

80 milljarða fjárfestingu stefnt í voða

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Nú er verulega illt í efni svo ekki sé meira sagt. Staðan sem komin er upp vegna framkvæmda í tengslum við Bakkaverkefni svokallað er með fádæmum slæm. Nú standa menn frammi fyrir því að uppbygging og ferli sem hefur verið unnið að árum saman er í hættu. Um er að ræða 80 milljarða fjárfestingu sem stefnt er í voða vegna kærumála.
Helst dettur mér í hug að hér sé um meinbægni að ræða því samfélagslegir hagsmunir eru gríðarlegir og margir eiga mikið undir. Menn hafa unnið samkvæmt öllum reglum á öllum stigum málsins. Sveitarfélög sem að málinu koma hafa unnið samkvæmt ákvæðum skipulagslaga og í þeim öllum er aðalskipulag í gildi. Vera má að menn sem stóðu fyrir kærumálum hafi ekki gert sér grein fyrir afleiðingum þeirra og hafi hugsað þessa aðgerð sem prófmál inn í framtíðina. Ef svo er er þetta algerlega út í hött og fráleitt að koma inn á lokastigi í þessu verkefni til að fá framtíðarsýn í meðferð framkvæmda.
Ákvæði um hraun sem njóta sérstakrar verndar hafa verið í lögum frá 1999 og því einkennilegt að nú vilji menn kollvarpa öllu sem gert hefur verið á grunni nýrra laga. Þetta mál snýst í raun um stutta línulögn yfir eldhraun. Við skulum hafa í huga að eldhraun hefur verið brotið víðsvegar og við þurfum ekki að horfa lengra en til nágrannasveitarfélaga höfuðborgarinnar til að sjá það. Skiptir máli hvar á landinu er verið að framkvæma, spyr sá sem ekki veit?
Þetta verkefni hefur verið unnið í breiðri sátt og pólitískri samstöðu fram að þessu. Það er því ekki undarlegt að heimamönnum sé brugðið og finnist það jafnvel sorglegt þegar einstaka þingmenn gleðjast yfir því að framkvæmd skuli vera komin í uppnám og menn standi frammi fyrir miklu tjóni. Nú er mál að linni. Við verðum að finna leiðina út úr þessum ógöngum og koma þessum málum í þann farveg að hægt sé að vinna áfram í breiðri sátt að uppbyggingu til framtíðar og við glötum ekki trúverðugleika okkar.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 31. ágúst 2016.