Categories
Fréttir

Nýfrjálshyggjukapítalistagræðgisvæðing Steingríms J

Deila grein

02/09/2016

Nýfrjálshyggjukapítalistagræðgisvæðing Steingríms J

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Ein af aukaafurðum þess þegar viðskiptabankarnir voru á sínum tíma afhentir kröfuhöfum var sú að 3% eignarhlutur í Landsbanka Íslands var afhentur völdum starfsmönnum. Það má segja að þetta sé framlag hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar til nýfrjálshyggjukapítalistagræðgisvæðingarinnar, svo notuð séu hans eigin orð. Þessi 3% klíka hefur síðan stjórnað Landsbankanum þrátt fyrir þessa litlu eignaraðild og þjóðin sem á þennan banka hefur ekki haft nein tækifæri til að hafa áhrif á rekstur hans eða hvernig hann fer fram. Hvernig hefur þetta kristallast? Þetta hefur m.a. kristallast í því hvernig farið var með eignarhluta ríkisins í Borgun sem var seldur fyrsta manni sem bankaði á dyrnar með hörmulegum afleiðingum sem síðan hafa kristallast. Þetta hefur líka komið fram í því að það mál ætlar engan endi að taka.
Nú hefur komið í ljós að það virðist svo sem það sé einhvern leyniþráður á milli Landsbankans og eigenda Borgunar. Þannig bárust fréttir af því mjög nýverið að Landsbanki Íslands hefði selt einbýlishús á höfuðborgarsvæðinu til eins af lykilstjórnendum Borgunar undir því verði sem Landsbankinn hafði áður fengið tilboð í, þ.e. Landsbankinn hafði fengið tilboð í þessa eign mánuði áður og seldi hana mánuði síðar lykilstjórnanda í Borgun á lægra verði.
Ég hlýt að spyrja: Hversu lengi á þetta mál að ganga svona án þess að Fjármálaeftirlitið geri neitt? Hversu lengi á þetta mál að ganga svona án þess að kjörnir fulltrúar á Alþingi hafi neitt um það að segja? Hversu lengi eiga menn sem sitja í skjóli 3% eignaraðildar og víla og díla, afsakið orðbragðið, um málefni þjóðarinnar sem á eign þessa í bankanum? Er ekki kominn tími til að hreinsa út þessa bankastjórn?“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 31. ágúst 2016.