Categories
Fréttir

Skattaafslátt vegna ferða til og frá vinnu

Deila grein

02/09/2016

Skattaafslátt vegna ferða til og frá vinnu

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Aðalfundur eignarhaldsfélags Kaupþings fór fram í gær. Þar voru bónusgreiðslur til um 20 starfsmanna félagsins samþykktar með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þessa ákvörðun nema að nú er nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Þær hugmyndir sem voru ræddar í þinginu í gær voru margar hverjar mjög áhugaverðar. Ég hef því óskað eftir því að eiga sérstaka umræðu við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um málið og ég vona svo sannarlega að sú umræða fari fram sem fyrst.
Það var samt annað sem ég ætlaði að ræða í dag. Í dag eru fréttir af verulegri aukningu umferðar um Hvalfjarðargöngin það sem af er þessu ári. Þetta er í samræmi við upplifun fólks sem keyrir þessa leið um göngin og Vesturlandsveg og margir hverjir á hverjum degi. Mikill þungi umferðar kemur úr þeim sveitarfélögum sem liggja hvað næst Hvalfjarðargöngunum norðan megin en eins og fram kom fyrir nokkru síðan aka um 2.000 bílar þessa leið dag hvern úr þeim sveitarfélögum. Þar er m.a. um að ræða fólk sem sækir vinnu og skóla í höfuðborginni. Þessir einstaklingar borga talsvert í ferðakostnað til að komast til og frá vinnu eða skóla. Það er óhætt að segja að mörgum finnist þessi kostnaður ósanngjarn þar sem þetta er eina leiðin úr höfuðborginni þar sem gjaldtaka fer fram. Öll gerum við okkur grein fyrir því að umferðarþunginn er orðinn mikill um Hvalfjarðargöngin og Vesturlandsveg og nauðsynlegt verður áður en langt um líður að fara í úrbætur á þessum vegum. Auk þess hafa átt sér stað umræður um fyrirhugaða Sundabraut sem verður vonandi að veruleika innan einhverra ára og tel ég að hún verði mikil samgöngubót fyrir svæðið.
Í þessu samhengi langar mig að minnast á þingsályktunartillögu sem ég lagði fram í þinginu 5. október 2015. Hún fjallaði um að þeim skattskyldu mönnum sem þurfa að greiða háan kostnað vegna ferða til og frá vinnu verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Tel ég að það fyrirkomulag sem tillagan kveður á um, þ.e. að taka upp skattafslátt vegna ferða til og frá vinnu, gæti verið skref í rétta átt við að styrkja atvinnusvæði víða um landið og jafnframt jákvætt fyrir fólk sem þarf að greiða talsverðar upphæðir til að komast til og frá vinnu eða í skóla. Ég vona svo sannarlega að þessi tillaga nái fram að ganga, hún væri mikið framfaraskref.“
Elsa Lára Arnardóttir 31. ágúst 2016.