Categories
Fréttir

„Að reikna barn í konu og úr henni aftur“

Deila grein

03/06/2015

„Að reikna barn í konu og úr henni aftur“

Karl_SRGBKarl Garðarsson, alþingismaður, hefur orðið á Alþingi í gær: „Virðulegur forseti. Í sögu Davíðs Stefánssonar, Sólon Íslandus, unnu menn sér það til frægðar að reikna barn í konu og úr henni aftur. Þetta rifjaðist upp um helgina þegar ágætur vinur minn og hv. þm. Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, fullyrti í fjölmiðlum að tekjuhæsti þriðjungur þjóðarinnar hefði fengið í sinn hlut rúma 50 milljarða út úr skuldaleiðréttingu núverandi ríkisstjórnar. Það er fjarri sanni. Í fyrsta lagi er framsetningin villandi því í útreikningana eru teknir þeir sem eru í hlutastörfum, í námi eða hreinlega ekki á vinnumarkaði þannig að sett er saman í einn pott og reiknað út frá því. Eini raunhæfi samanburðurinn er að skoða tekjudreifingu þeirra 74 þús. aðila sem er með verðtryggð húsnæðislán. Þetta eru þeir sem urðu fyrir forsendubresti.“
Og Karl hélt áfram: „Staðreyndirnar eru þessar: 60% heimila sem fengu leiðréttingu voru með 8 milljónir eða minna í árstekjur, eða sem samsvarar 670 þús. kr. á mánuði. Stærsti hluti leiðréttingarinnar fór til heimila með árstekjur undir 4 millj. kr. Vinstri stjórnin beitt sér fyrir svokallaðri 110%-leið. Þar fengu þeir 1.250 einstaklingar sem mest fengu að meðaltali 21 millj. kr. hver í sinn hlut, 21 milljón. Þeir 1.250 einstaklingar sem fengu mest í aðgerð núverandi ríkisstjórnar fengu að meðaltali 3,5 millj. kr. í sinn hlut. 21 millj. kr. frá fyrri ríkisstjórn, 3,5 millj. kr. frá þessari. Ég ætla ekki einu sinni að tala um þá einstaklinga sem fengu tugmilljónir kr. út úr 110%-leið Steingríms Sigfússonar.“
„Gagnrýni á leiðréttingu núverandi ríkisstjórnar kemur því úr hörðustu átt frá þeim sem settu heimsmet í óréttlæti. Heimsmet í óréttlætri dreifingu fjármuna,“ sagði Karl að lokum.
Ræða Karls Garðarssonar: