Categories
Fréttir

Aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna

Deila grein

11/06/2019

Aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur lagt fram á Alþingi „Aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna“. Í tillögunni segir að með samþykkt Alþingis á ályktuninni er ríkisstjórninni falið að hrinda í framkvæmd 17 atriðum er miða að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þingsályktunartillagan er lögð fram í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
Meðal atriða í aðgerðaráætluninni er að innleiða viðbótartryggingar gagnvart innfluttu kalkúnakjöti, kjúklingakjöti og eggjum og að óskað verði eftir viðbótartryggingum vegna innflutts svínakjöts og nautakjöts. Dreifing alifuglakjöts verður og bönnuð nema sýnt sé fram á að ekki hafi greinst kampýlóbakter.
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimilaði Íslandi í upphafi ársins að beita viðbótartryggingum er felst í að framleiðandi eða sendandi vörunnar til landsins taki sýni úr sérhverri sendingu á kjúklinga- og kalkúnakjöti og úr eggjum sem verða rannsökuð með tilliti til salmonellu.

  • Heimilt verður að gera kröfu að vottorð um sýnatöku og rannsókn fylgi hverri sendingu af framangreindum afurðum.

Sambærilegt kerfi viðbótartrygginga er einnig til staðar vegna svínakjöts og nautakjöts en Noregur, Finnland og Svíþjóð hafa þegar fengið slíkar viðbótartryggingar. Takist ekki að fá slíkar viðbótartryggingar er því beint til ráðherra að grípa til ráðstafana sem komi í veg fyrir dreifingu á salmonellusmituðu kjöti á markaði til að verja lýðheilsu – að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.

  • Setti verði í lög að óheimilt sé að dreifa ómeðhöndluðum sláturafurðum alifuglakjöts á markaði nema sýnt sé fram á að kjötið sé frá eldishópum sem ekki eru sýktir af kampýlóbakter.

Aðgerðaráætlunin kveður á um að sett verði á fót áhættumatsnefnd og er hlutverk hennar að veita og hafa umsjón með framkvæmd vísindalegs áhættumats á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru og er ætlað að stuðla að bættri áhættustjórnun og vera til ráðgjafar í tengslum við stefnumótun yfirvalda í fyrrgreindum málaflokkum. Gengið verði frá skipan áhættumatsnefndar fyrir 1. júlí 2019. Seinni hluti ársins verði nýttur til að skipuleggja starf nefndarinnar, kostnaðarmeta það og tryggja nauðsynlegar fjárveitingar frá og með árinu 2020.
Átak verði gert til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi og að tryggð verði skjótari innleiðing reglugerða Evrópusambandsins þegar stöðva þarf innflutning á tilteknum vörum með skömmum fyrirvara. Innleidd verði reglugerð (EB) nr. 206/2009 um innflutning dýraafurða til einkaneyslu. Með henni verða sett skýr ákvæði um hvaða vörur og afurðir farþegar mega taka með sér á milli landa og í hvaða magni og jafnframt hertar reglur um innflutning kjöt- og mjólkurafurða farþega frá löndum utan EES og þeim verður almennt óheimilt að flytja þessar afurðir með sér til landsins.
Ísland ætlar að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga og á grundvelli lýðheilsusjónarmiða munu íslensk stjórnvöld stefna að því að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þessu er ætlað að náð m.a. með:

  • banni við dreifingu tiltekinna sýklalyfjaónæmra baktería í matvælum að undangenginni greiningu á stöðunni,
  • uppsetningu eftirlits og í samræmi við opinbera stefnu í aðgerðum gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.

Mikilvægt er að kallaðir séu til færustu sérfræðingar í því skyni að móta aðgerðir sem miði að því að lágmarka áhættu sem felst í sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skili Alþingi skýrslu um framgang þeirrar stefnu fyrir 1. mars 2020. Þar skulu mismunandi valkostir við framangreinda stefnu reifaðir og sett fram tímasett aðgerðaáætlun um næstu skref, m.a. hvenær bann verður sett við dreifingu matvæla sem innihalda tilteknar sýklalyfjaónæmar bakteríur. Fyrir 1. október 2020 verði settar reglur, á grundvelli framangreindrar vinnu, um það hvernig þessum markmiðum verður best náð.
Auka þarf sýnatökur á markaði og efla innviði til að geta sinnt betur þjónustu- og vísindarannsóknum, ráðgjöf og eftirliti í tengslum við sýklalyfjaónæmi. Þannig þarf sem fyrst að stofna sýklalyfjaónæmissjóð sem hefur það hlutverk m.a. að fjármagna auknar rannsóknir.

  • Byggja upp þekkingu sem þarf til að sýna fram á sérstöðu íslenskrar framleiðslu með tilliti til sýklalyfjaónæmis.
  • Þróa þarf fljótvirkar og ódýrar aðferðir til að greina sýklalyfjaónæmi í matvælum, en það er forsenda þess að lágmarka áhættu sem felst í sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum.
  • Á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar er samvinna um baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi.

Opinberum eftirlitsaðilum verði tryggð heimild til að leggja stjórnvaldssektir á matvælafyrirtæki sem brjóta gegn banni við dreifingu alifuglakjöts án sönnunar fyrir því að ekki hafi greinst í því kampýlóbakter. Þannig verði lögð áhersla á ábyrgð matvælafyrirtækja á því að tryggja að matvæli á markaði séu örugg.
Tryggð verði aukin fræðsla til ferðamanna um innflutning afurða úr dýraríkinu.  Talið er að hætta sé á að sjúkdómsvaldar flytjist til landsins með matvælum og klæðnaði ferðafólks. Sú hætta er þegar til staðar og því mikilvægt að farþegar til landsins fái fræðslu um góða sjúkdómastöðu íslenskra búfjárstofna og hversu viðkvæmir þeir eru fyrir nýju smiti. Fjármagn verði sett í átak og þannig sé brýnt fyrir fólki sem hingað kemur, jafnt Íslendingum sem erlendum ferðamönnum, hvað beri að varast varðandi matvæli og klæðnað svo sem alþekkt er í löndum sem hafa hliðstæðar áherslur að þessu leyti.
Til að efla nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu er lagt til að settur verði á fót sjóður með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Talið er að með sameiningu sjóðanna megi efla og styrkja nýsköpunar- og þróunarumhverfi atvinnugreinanna. Til að ná því markmiði verður aukið fjármagn sett í slíkan sjóð. Tryggt verði að hlutfallsleg skipting fjármagns til þessara atvinnugreina verði með sambærilegum hætti og nú er.
Innleidd verði innkaupastefna opinberra aðila á matvælum en ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila. Markmið stefnunnar er að tryggja neytendum matvæli úr heilnæmum afurðum með tilliti til framleiðsluhátta og umhverfisáhrifa. Innkaupastefnan tekur mið af því að opinber innkaup matvæla stuðli að minnkun kolefnisspors við framleiðslu og flutning. Stefnunni verði í kjölfarið vísað til ráðherranefndar um matvælastefnu sem hafi það hlutverk að innleiða stefnuna.
Mótuð verði matvælastefna fyrir Ísland og hefur verkefnisstjórn þegar hafið vinnu sína. Tilgangur stefnunnar er að draga fram þær áherslur stjórnvalda að Ísland eigi að verða leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum ásamt því að móta framtíðarsýn, markmið og tillögur að aðgerðaáætlun til að innleiða í íslenskt atvinnulíf og stjórnkerfi. Mikilvægt er að ná til og virkja hagsmunaaðila og samtök á sem flestum sviðum í þeirri vinnu sem fram undan er og forsenda þess er m.a. að þeir ráðherrar sem fara með stjórnarmálefni sem snerta verkefnið komi með virkum hætti að mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Því hefur verið skipuð sérstök ráðherranefnd til að fjalla um matvælastefnu Íslands undir forustu forsætisráðherra.
Ráðist verði í átak um betri merkingar matvæla. Aðilar samkomulagsins eru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bændasamtök Íslands, Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu, Félag atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins. Markmið átaksins er að tryggja rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif matvæla.
Könnuð verði þróun tollverndar og greind staða íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.
Tekið verði til skoðunar að setja á fót sérstakan tryggingasjóð vegna tjóns sem framleiðendur geta orðið fyrir vegna búfjársjúkdóma þar sem að litið verði til nágrannaríkjanna og mögulegra úrræða innan Evrópusambandsins og þeirra úrræða sem nú þegar eru í boði fyrir bændur sem verða fyrir tjóni af völdum búfjársjúkdóma.
Ráðist verði í átak um aukið eftirlit í kjölfar afnáms leyfisveitingakerfisins. Að fjórum mánuðum liðnum verði tekin afstaða til hvernig framgangur eftirlitsins hefur verið. Komi í ljós miklar brotalamir á eftirliti er mikilvægt að fyrirkomulag þess verði endurskoðað frá grunni. Þar verði lögð sérstök áhersla á sýnatökur og að skoða vottorð vegna salmonellu og kampýlóbakter og tíðni skyndiskoðana aukin samhliða því. Með þeim hætti verði áreiðanleiki framangreindra þátta treystur. Þá verði Matvælastofnun falið að útfæra leiðbeiningar fyrir innflytjendur um þau vottorð og skírteini sem þurfa að vera til staðar fyrir innflutning matvæla.
Fyrir Alþingi á liggja skýrsla um framgang áætlunarinnar fyrir 1. nóvember 2019 og hún kynnt atvinnuveganefnd.

(Ljósmynd: Rakel Guðmundsdóttir)