Categories
Fréttir

ADHD getur verið styrk­leiki

Deila grein

09/11/2022

ADHD getur verið styrk­leiki

Þingkonan Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir er ein af fjölmörgum Íslendingum sem hafa greinst með ADHD. Hún segir að mikilvægt sé að tala ekki niður til þeirra sem glíma við ADHD.

„Þegar fólk heyrir mig tala um að ég sé með ADHD er fólk alltaf að tala um að það sjáist ekki á mér. Ef þú þekkir mig vel þá sérðu það,“ segir Haf­dís Hrönn Haf­steins­dóttir, þing­kona Fram­sóknar, létt í lund í sam­tali við Frétta­blaðið sem snýst um ADHD.

Hún tók til máls á sér­stakri ADHD ráð­stefnu sem var haldin á dögunum. At­hyglis­brestur og of­virkni, oft kallað ADHD í dag­legu tali, er tauga­þroska­röskun sem getur haft víð­tæk á­hrif á dag­legt líf.

„Maður er búin að læra inn á hvernig það má nýta þetta til góðs, og hve­nær maður á að þekkja eigin mörk. Maður lærir hvernig það má stýra þessum styrk­leikum til að nýtast manni,“ segir Haf­dís og bætir við að þetta sé lang­tíma­verk­efni.

„Þetta er lang­hlaup. Ég á það enn þá til að brjóta mig niður fyrir að vera ekki nógu góð í tíma­stjórnun.“

Flutti úr landi með dags­fyrir­vara

Haf­dís sem fékk greiningu rétt eftir tví­tugt er fædd á Ísa­firði en fluttist ung til Reykja­víkur.

„Ég fékk greininguna 21 árs. Fram að því hafði ég átt erfitt með að festa hlutina og var svo­lítið sveim­huga. Skýrasta dæmið um það er þegar ég á­kvað að flytja til Noregs með sólar­hrings­fyrir­vara. Mamma bjó úti og ég fékk þá hug­dettu að það væri ó­trú­lega sniðugt að prófa að búa er­lendis. Ég pakkaði í töskur og flutti degi síðar,“ segir Haf­dís og bætir við að það hafi verið hár­rétt á­kvörðun á þeim tíma­punkti þegar hún lítur í baksýnisspegilinn í dag.

„Ég sé ekki eftir þessari á­kvörðun. Það er oft sem maður hugsar til baka: ég hefði mátt hugsa þetta betur, en þetta er ekki ein af þeim. “

Haf­dís kannast við stefið að ADHD hafi sett í strik í reikninginn í skóla­göngu.

„Þetta hafði mikil á­hrif á skóla­ferilinn. Það komu tímar sem það tók á að reyna að halda sig við efnið, en um leið var maður góður í öðru. Tungu­mála­kunn­átta er eitt­hvað sem ég var fljót að til­einka mér, en hlutir sem kröfðust yfir­legu voru erfiðari. “

Úr lög­fræði á þing

Eftir að hafa fengið greiningu náði Haf­dís betri tökum á skóla­ferlinum og var komin með meistara­gráðu í lög­fræði nokkrum árum síðar.

„Ég fór strax á lyf sem tók eðli­lega smá tíma að stilla af og fann mikinn mun. Ég reyndi að sækja mér fræðslu sam­hliða um hvernig væri hægt að vinna með þetta og ná betri tökum og náði að sam­tvinna þetta,“ segir hún og minnist þess að í miðju há­skóla­námi hafi hún hætt á lyfjum þegar hún var barns­hafandi og ekki misst úr slag.

„Þetta var mikil keyrsla, og til við­bótar eignaðist ég barn á öðru ári í laga­náminu. Þegar ég lít til baka þá skil ég ekki hvernig þetta hafðist allt saman. Þegar ég var ó­létt fann ég að ég þurfti ekki á lyfjunum að halda því líkaminn var að fram­leiða hormónana sem heilanum vantaði og námið gekk betur en nokkru sinni fyrr. Líkaminn sýndi þar hvers hann er megnugur.“

Talið berst að starfi Haf­dísar. Þing­fundir geta verið tíma­frekir en hún segist vera með­vituð um leiðir til að takast á við það.

„Það eru alveg enn­þá hlutir þarna, hvat­vísi og ég verð utan við mig. Ég get átt erfitt með að sitja kyrr á löngum fundum, en maður lærir um leið inn á það og man að standa upp og hreyfa sig. Það virkar betur fyrir mig að ein­beita mér þegar ég er á hreyfingu. Á löngum fundum á maður það til að fara að fikta í ein­hverju,“ segir hún kímin.

„Þegar maður er í vinnu sem krefst ein­beitingar getur heilinn haft á­kveðin tak­mörk. Það er oft talað um að taka 50 mínútur af vinnu og tíu mínútur í hlé. Þá búir þú til að­stæður þar sem fram­leiðnin sé í há­marki.“

Hafdís, hér fyrir miðju í öftustu röð, var kosin inn á þing í fyrsta sinn á síðasta ári. Fréttablaðið/valli

Ekki rétt að kalla þetta veik­leika

Á ráð­stefnunni voru kynntar niður­stöður þar sem var fjallað um að ungar stúlkur ættu það til að vera greindar með kvíða frekar en ADHD. Strákar væru mun oftar greindir en hlut­fallið ætti að vera jafnt.

„Ég fann alltaf fyrir á­kveðnum frammi­stöðu­kvíða. Það er hræðsla um að missa af ein­hverju eða bregðast ein­hverjum. Í mínu til­felli er tíma­stjórnun af­skap­lega kvíða­valdandi, en á sama tíma getur þetta verið ofur­kraftur ef þú nærð að beisla þetta og nýta í lífinu sem þinn helsta kost. Þá ertu með eitt­hvað í höndunum sem getur auðgað sam­fé­lagið. Margir af helstu frum­kvöðlum heims eru með ADHD. Það þarf að vera fram­úr­stefnu­legur í hugsun til að brydda upp á nýjungum,“ segir Haf­dís og heldur á­fram:

„Um­ræðan í sam­fé­laginu er enn á þann hátt að fólk vill lítið ræða þetta og telur að þetta sé jafn­vel veik­leiki, sem það er alls ekki. Það eru fáir ein­staklingar jafn út­sjónar­samir og frjóir í hugsun og þeir sem eru að eiga við þessa á­skoranir dag­lega. Þá þarf að leita annarra leiða til að láta hlutina ganga upp og skoða hlutina frá öðru sjónar­horni. Þess vegna er svo mikil­vægt að horfa ekki á þetta frá nei­kvæðu sjónar­horni og taka for­dómana úr þessu. Það er al­gengt grín að segja: ertu með ADHD? Og hlæja. Ég hef gert þetta sjálf, en það er líka frá­bært stundum að svara játandi þegar spurningin kemur.“

Mál­efni sem stendur nærri

Á ráð­stefnunni var talað um dulinn kostnað þess að það séu fjöl­margir í sam­fé­laginu sem eigi eftir að fá greiningu. Á­ætlað var að um 30-60 þúsund ein­staklingar séu með ADHD á Ís­landi og að það væri erfitt að ná að sinna öllum.

Haf­dís sem hefur um ára­bil tekið þátt í stjórn­málum á ýmsan máta tók sæti á þingi í fyrsta sinn á síðasta ári. Þar hefur hún á­kveðinn grunn í að vinna í tengslum við mál­efnið sem hefur aukið vægi fyrir hana.

„Þetta mál­efni stendur ná­lægt manni. Ég kalla þetta ofur­krafta og segi að ef þú beinir þessu í rétta átt og lærir að þekkja inn á þig þá ertu með eitt­hvað í höndunum sem enginn getur fest fingur á hvað er hægt að gera með,“ segir hún og talar um mikil­vægi þess að nálgast mál­efnið rétt í til­fellum barna.

„Það er alltaf talað um að mæta krökkunum okkar þar sem styrk­leikarnir þeirra og á­huga­svið liggur til að reyna að nýta styrk­leika þeirra til fulls. Það er kostnaður sem fylgir því, en það mun borga sig marg­falt þegar búið að veita þeim að­stoð og mynda sterkari ein­stak­linga,“ segir þing­konan, spurð um að­gerðir stjórn­valda í þessum málum.

„Bannað að eyði­leggja, bók Gunnars Helga­sonar, sem tekur sögur af ADHD og setur í barna­bók. Hún er of­boðs­lega mikil­væg fyrir krakka sem eru að eiga við ADHD til að geta speglað þessar upp­lifanir. Það er mjög mikil­vægt fyrir krakkana að heyra já­kvæðar sögur.“

Á ráð­stefnunni var talað um að 75 prósent fanga væru með ADHD.

„Margir karlar á Litla Hrauni sem hafa greinst með ADHD hafa lýst því að þegar þeir voru litlir voru þeir oft bara skil­greindir sem ó­þekkir. Það er eitt­hvað sem er þörf á að laga, hvernig er talað til strákanna okkar. Ef við erum sí­fellt að saka þá um ó­þekkt, þá enda þeir á að trúa því að þeir séu einksis nýtir því þeir geti ekki setið kjurrir, “ segir Haf­dís og heldur á­fram:

„Það eru margar sögur frá fyrri föngum sem voru brotnir niður sem börn því þeir náðu ekki að fóta sig. Það eru ein­staklingar sem eru að lenda í að­stæðum sem þeir ráða ekki við og fara af sporinu því hvat­vísin getur alveg leitt fólk þangað.“

Viðtalið birtist vefnum: frettabladid.is 5. nóvember 2022.