Categories
Greinar

VESTFIRÐIR Í BLÓMA

Deila grein

09/11/2022

VESTFIRÐIR Í BLÓMA

Það má svo sannarlega segja að það hefur verið byr í seglum samfélaga á Vestfjörðum undanfarin áratug. Ef horft er til síðustu þriggja áratuga má segja að það ríki meiri bjartsýni og þróttur nú en skynja mátti í upphafi þessarar aldar. Uppbygging nýrra atvinnugreina líkt og fiskeldis og ferðaþjónustu hafa komið inn með nýjan kraft og afleidd störf og nú vex íbúatalan á ný.

Atvinnugrein í vexti

Fiskeldið er ung atvinnugrein á Íslandi, sjókvíaeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum hefur vaxið hratt og nú er svo komið að fiskeldi fer að keppa við hefðbundinn sjávarútveg í verðmæti útflutningsvara. Gera má ráð fyrir að fiskeldið geti orðið stærsti hluti af efnahagsumsvifum Vestfjarða innan fárra ára. Vestfirðingar hafa tekið uppbyggingu á fiskeldi fagnandi enda er það grundvöllur vaxtar og kallar á ný og fjölbreyttari störf.  Við í Framsókn höfum staðið með sjálfbærri uppbyggingu greinarinnar frá upphafi.

Það er þó grunnforsenda til þess að samfélögin nái að vaxa með greininni að rétt skilyrði séu fyrir hendi. Einn þáttur í því er að tekjur sveitarfélaga af fiskeldi séu tryggar svo þau geti staðið undir uppbyggingu innviða vegna aukinna umsvifa og fjölgun íbúa. Uppbyggingin hefur verið hröð síðustu ár en svo virðist sem hlutur sveitarfélaganna hafi orðið undir þegar kemur að gjaldtöku. Af því tilefni hefur undirrituð lagt fram þingsályktunartillögu sem snýr að því að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi gjaldtökunnar í heild. Áhersla er lögð á að yfirfara  það sem snýr að sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað og skýra heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku. Tillagan snýr ekki að aukinni gjaldtöku heldur þarf að tryggja að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum þeirra sveitarfélaga sem standa næst eldinu, ásamt því að tryggð sé sjálfbærni þeirra hafna og samfélaga þar sem þessi atvinnustarfsemi er stunduð.

Jökulfirðir og fiskeldi

Árið 2004 var merk ákvörðun tekin af stjórnvöldum þegar ákveðið var hvar óhætt væri fyrir umhverfið að stunda fiskeldi. Byrjað var á að loka stærsta hluta strandlengjunnar þannig eldi var aðeins leyft á hluta Austfjarða, á Vestfjörðum og í Eyjafirði.

Síðasta sumar var  sett fram tillaga svæðisráðs Vestfjarða um Strandsvæðaskipulag Vestfjarða sem nær frá Bjargtöngum að Straumnesi. Niðurstaðan er sýn vinnuhóps, sem m.a. var skipaður fulltrúum sveitarfélaganna sem ná yfir þetta svæði, hvernig þau vilja sjá framtíðarnýtingu og vernd þess svæðið sem um ræðir. Strandsvæðisskipulag getur náð yfir fiskeldið, nytjastofna, efnistöku eða ferðaþjónustu. Það er mikilvægt að horfa heilt yfir svæðið þá sérstaklega þegar eins umfangsmikil atvinnugrein eins og fiskeldi er á svæðinu.

Í tillögu svæðisráðs er lagt til að ekki verði farið með fiskeldi inn í Jökulfirði og þeir friðaðir fyrir nýtingu. Það hefur verið nokkuð umdeilt sér í lagi þar sem firðirnir þykja liggja vel fyrir fiskeldi. En það er einnig mikilvægt að Vestfirðingar standi vörð um það sem einkennir svæðið og er friðlandið Hornstrandir stór þáttur í sérstöðu fjórðungsins og nauðsynlegt að halda þeim sérkennum til framtíðar.

Við höfum upp á margt að bjóða

Ferðaþjónusta á Vestfjörðum hefur verið í uppbyggingu og bjartsýni ferðaþjónustuaðila á svæðinu var áþreifanlegur þegar útsýnispallurinn á Bolafjalli var opnaður fyrr í haust. Um er að ræða glæsilegt mannvirki á heimsmælikvarða sem kemur til með að draga að sér verðskuldaða athygli. Þá hafa síðustu ár verið unnin þrekvirki í löngu tímabærum samgöngubótum í á sunnanverðum Vestfjörðum og nú hillir nú undir að hringvegur um Vestfirði verði með heilsárs opnun. Með því verður gjörbylting í ferðaþjónustu og ferðamenn geta sótt fjórðunginn heim allt árið. Tónlist, leiklist og matarmenning er í blóma. Menning og ferðaþjónusta eru nátengd en menning hefur alltaf verið í hávegum höfð á Vestfjörðum. Menning og listir auka aðdráttarafl svæðisins og því mikilvægt að halda áfram að styrkja skapandi greinar því þær móta auk náttúrunnar ásýnd svæðisins.

Já það má með sanni segja að Vestfirðir vaxi á eigin forsendum þessi misserin með því að nýta sér sína sérstöðu, mannlíf og samstöðu. Sérstaðan er mikilvæg en um leið viðkvæm og þarf að varðveita. En ef við náum að gæta að sérstöðunni náum við að viðhalda vexti og sjá samfélögin þroskast í réttum takti.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 9. nóvember 2022.