Categories
Fréttir

Af fundarstjórn forseta

Deila grein

26/02/2014

Af fundarstjórn forseta

Karl GarðarssonKarl Garðarsson fór yfir í umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag að síðastliðna tvo sólarhringa, mánudag og þriðjudag, hafi stjórnarandstaðan kvatt sér hljóðs 292 sinnum undir liðnum fundarstjórn forseta í tengslum við umræðuna um ESB og talað í 321 mínútu.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur flutt flestar ræður undir þessum lið eða sextán. Skammt undan eru Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Valgerður Bjarnadóttir hefur reyndar komið mjög sterk inn á síðustu klukkustundum og nálgast topp þrjú.
Karl fór yfir að samkvæmt þingsköpum mætti hver þingmaður koma upp tvisvar sinnum, eina mínútu í senn, til að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. Hann sagði að gera yrði þá lágmarkskröfu að þingmenn kæmu upp til að ræða það sem þessi liður snérist um – fundarstjórn forseta.
Miklar deilur hafa verið á Alþingi í vikunni vegna ákvörðunar stjórnvalda um að draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert það sem þeir geta til að koma í veg fyrir að utanríkisráðherra nái að mæla fyrir þingsályktunartillögunni í þessari viku en í næstu viku verða ekki þingfundir vegna nefndadaga.
„Eitt stærsta vandamál þingsins er vantraust – vantraust almennings sem hefur fengið nóg af innantómu pexi þingmanna. Það er alltaf stutt í málþófið og það er til skammar,“ sagði Karl Garðarsson.