Categories
Fréttir

„Agi og aðhald er það sem til þarf“

Deila grein

09/11/2015

„Agi og aðhald er það sem til þarf“

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér vexti og verðtryggingu. Sú yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands að hækka vexti um 0,25% og fara með stýrivexti í 5,75% ætti ekki að koma neinum á óvart. Verðbólguhorfur hafa í raun ekki breyst og þessi ákvörðun er í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar og skilaboð frá peningastefnunefndinni og Seðlabankanum. Sú staðreynd að þetta er helsta stjórntæki Seðlabankans er í raun ekki aðalatriðið heldur sú vegferð sem fram undan er. Þær aðgerðir og ákvarðanir sem við tökum nú og á næstu missirum í fjármálastjórn og stefnu í gegnum fjárlögin og aðrar ákvarðanir þar að lútandi á aðra löggjöf hefur afgerandi áhrif á fjármál ríkisins. Agi og aðhald er það sem til þarf, en margir hafa bent á að nægilegs aðhalds skorti nú þegar í fjárlögum.
Framtíðin mun markast mjög af bættum kjörum í kjölfar kjarasamninga og að aukinn hagvöxtur sem flestar spár gera ráð fyrir byggi meðal annars á innlendri eftirspurn. Seðlabankinn hefur þegar boðað aukið aðhald peningastefnunnar, það þýðir auðvitað bara eitt, að stýrivextir verði hækkaðir jafnt og þétt. Auðvitað mun framvinda og þróun losunar fjármagnshafta hafa áhrif og svo ákvörðun um beitingu annarra tækja en vaxta, eins og beiting bindiskyldu. Í öllu falli getum við ekki treyst á lágt olíuverð og að áframhaldandi styrking krónunnar haldi endalaust aftur af þörf á frekari stýrivaxtahækkunum í auknum og hraðari takti en hingað til.
Hæstv. ríkisstjórn er enn að fylgja tímalínu er varðar afnám verðtryggingar. En ljósin blikka á kunnuglegan vítahring, virðulegi forseti, að ráðstöfunargetan og kaupmátturinn hverfi í verðtryggðan skuldabing og enn ein uppsveiflan verði fjármögnuð á skuldahlið heimilanna.“
Willum Þór Þórsson  — í störfum þingsins  4. nóvember 2015.