Categories
Fréttir

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum

Deila grein

14/02/2024

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum

Að beiðni Jóhanns Friðriks Friðrikssonar þingmanns Framsóknar flutti forsætisráðherra munnlega skýrslu á alþingi um áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðunesjum. Umræðan var góð og fróðleg og varpar ljósi á þær gífurlegu áskoranir sem standa fyrir dyrum. Forsætisráðherra fór í máli sínu yfir þann yfirgripsmikla undirbúning og margvíslegu aðgerðir sem gripið hefur verið til, svo varna megi tjóni og neikvæðum áhrifum á líf fólks.

Fyrir hönd Framsóknar tóku til máls formaður flokksins og innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, auk Jóhanns Friðriks Friðrikssonar.

Í máli Sigurðar Inga kom meðal annars fram: ,,Staðreyndin er sú að við höfum frá fyrstu dögum, kallað fullt af fólki til vinnu og verka til að skipuleggja hvernig er hægt að takast á við náttúruna, undirbúa plan A, plan B, plan C jafnvel, og vera tilbúin til að gera fleiri hluti þegar það þarf vegna þess að stundum leikur náttúran á okkur. Stundum vinnum við en stundum vinnur náttúran og þá þurfum við að vera með viðbótarplan. Þess vegna hafa menn getað brugðist við svo hratt sem raun ber vitni í þeim atburðum sem við erum að horfa á núna í baksýnisspeglinum næst okkur.”

Enn fremur sagði Sigurður Ingi: ,, Við þurfum úti um allt land að átta okkur á því að náttúruváin er til staðar þó að hún hafi ekki ógnað okkur í 100 ár. Hún getur gert það á næstu 50 árum, getur gert það eftir nokkur ár, hún getur gert það þess vegna á næstu mánuðum. Það er mikilvægt til þess að hugsa, hér í þessari umræðu um hamfarirnar á Suðurnesjum, að við erum búin að undirbúa okkur gríðarlega vel. En við getum hins vegar ekki komið hér og fullyrt að við séum búin að koma í veg fyrir allt sem gerist af því að þrátt fyrir okkar virtu vísindamenn og þekkingu þá getum við ekki vitað hvað nákvæmlega gerist. Við getum spáð fyrir um það. Við getum undirbúið það eins og var gert svo vel í þessum hamförum síðustu daga og þess vegna var hægt að grípa til plans B þegar A gekk ekki og vera tilbúin með plan C ef það myndi ekki ganga.

Jóhann Friðrik vék að því hversu stolt við erum öll af því fólki sem stendur vaktina, dag og nótt, en það er í eðli okkar Íslendinga að standa saman þegar gefur á bátinn. ,,Ég er stoltur af öllu þessu frábæra fólki og veit að það eru íbúar á Suðurnesjum og landsmenn allir. En hér hefur verið nefnt: Og hvað svo? Nú þegar þessum viðburði er lokið í bili verðum við að fara yfir það sem betur mætti fara. Við eigum að taka þá umræðu á heiðarlegan hátt og halda ótrauð áfram. Suðurnesjamenn hafa gengið í gegnum ýmislegt í gegnum tíðina en gríðarlegar jarðhræringar og eldgos í námunda við byggð hafa ekki ógnað tilveru okkar og lífsgæðum frá því að land byggðist. Sú byrði hefur lent af ómældum þunga á Grindvíkingum sem nú búa fjarri heimilum sínum og við þeim blasir óvissa sem stjórnvöld þurfa að mæta eftir fremsta megni. Það orðatiltæki að enginn viti hvað átt hefur fyrr en misst hefur, hefur verið mjög ofarlega í huga á undanförnum dögum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að huga að okkar innviðum til lengri tíma. Ég er stoltur af þeim verkefnum sem stjórnvöld hafa farið í á undanförnum mánuðum og árum til að bregðast við þeirri náttúruvá sem hefur blasað við okkur og ég er þess fullviss að sú vinna mun halda áfram. Ég vil nýta þetta tækifæri undir lok ræðu minnar til að segja aftur: Takk, kæru íbúar á Suðurnesjum, fyrir þolgæði ykkar, dugnað og samkennd á þessum tíma. Við munum áfram standa þétt við bakið á ykkur.”