Categories
Fréttir

„Algjört lykilatriði í því að ná stöðugleika á húsnæðismarkaði“

Deila grein

18/12/2019

„Algjört lykilatriði í því að ná stöðugleika á húsnæðismarkaði“

Samþykkt var á Alþingi í gær frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, að sett verði á fót Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Henni er ætlað að taka yfir verkefni Mannvirkjastofnunar og verkefni þess hluta Íbúðalánsjóðs sem skilinn verður frá ÍL-sjóði. Þá er lagt til að stofnaður verði Húsnæðissjóður, sem taka á við þeim eignum og réttindum Íbúðalánasjóðs sem ekki verða eftir í ÍL-sjóði.
Íbúðalánasjóði verði þannig skipt upp þannig að sá hluti starfsemi sjóðsins sem snýr að útgáfu skuldabréfa Íbúðalánasjóðs (HFF-bréfa), eldri lánastarfsemi og fjárstýringu eigna utan lánasafns, svo sem lausafjár og annarra verðbréfa, verði eftir í Íbúðalánasjóði sem mun fá nafnið ÍL-sjóður.
„Algjört lykilatriði í því að ná stöðugleika á húsnæðismarkaði“

„Það eru mikil sóknarfæri fólgin í því að auka slagkraft málaflokkanna með því að stækka og fækka ríkisstofnunum. Þannig er hægt að fá aukin slagkraft í þá málaflokka sem þarna eru undir, húsnæðis- og mannvirkjamálin, sem er algjört lykilatriði í því að ná stöðugleika á húsnæðismarkaði til lengri tíma litið. Þannig að ég bind miklar vonir við þetta mál og fagna því mjög að þingið sé hér að samþykkja þetta frumvarp og að við skulum vera að sjá nýja öfluga Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að taka til starfa strax 1. janúar,“ sagði Ásmundur Einar í atkvæðagreiðslu á Alþingi í gær.

Áætlanir gera ráð fyrir að lán Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til fjármögnunar almennra íbúða geti verið allt að 35 milljarðar kr. miðað við uppbyggingu kerfisins til ársins 2022. Verði lánin fjármögnuð af Húsnæðissjóði með lántöku sjóðsins frá ríkissjóði, frekar en frá ÍL-sjóði, þyrfti ríkissjóður að taka þá fjárhæð að láni á markaði. Ávöxtunarkrafa á löngum verðtryggðum ríkisskuldabréfum hefur undanfarið verið á bilinu 0,7–0,8%. Ef gert er ráð fyrir 0,8% vaxtagreiðslum auk 2,5% verðbólgu í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, væru árlegar vaxtagreiðslur vegna lántöku ríkisins þá um 1,2 milljarðar kr. á ári. Gert er ráð fyrir að lánað yrði áfram til Húsnæðissjóðs á 2% verðtryggðum vöxtum og væru vaxtagreiðslur sjóðsins til ríkisins þá um 1,6 milljarðar kr. á ári. Miðað við þetta mundu hreinar vaxtatekjur ríkissjóðs hækka um u.þ.b. 400 milljónir kr. á ári.