Categories
Fréttir

Tekju- og eignamörk leigjenda almennra íbúða hækkuð

Deila grein

18/12/2019

Tekju- og eignamörk leigjenda almennra íbúða hækkuð

Með nýjum lögum um almennar íbúðir og félagsþjónustu sveitarfélaga eru tekju- og eignamörk leigjenda almennra íbúða hækkuð og með því móti eiga fleiri landsmanna kost á almennum íbúðum. Jafnframt hefur verið lækkaður fjármagnskostnaður stofnframlagshafa og er nú heimilt að gera samninga um úthlutun stofnframlaga til allt að þriggja ára í senn til þess að auka fyrirsjáanleika í verkefnum viðkomandi.
„Ég fagna því mjög að við séum að greiða atkvæði um þetta frumvarp sem er tvíþætt, annars vegar lítur að því að efla stöðu landsbyggðarinnar innan almenna íbúakerfisins og gera möguleika á því að geta byggð almennar íbúðir víðar heldur en bara á höfuðborgarsvæðinu. Og það er vel. Síðan erum við með hér hluti sem lúta beint að lífskjarasamningnum,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, í atkvæðagreiðslu á Alþingi í gær.
Framlag stjórnvalda vegna lífskjarasamningsins var meðal annars til þess að hægt var að ná farsælum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Stjórnvöld munu koma að mjög umfangsmiklum aðgerðum í húsnæðismálum ásamt fleiri nýjum aðgerðum á næsta ári sem miða að því að fylgja eftir lífskjarasamningnum.

„Ég get þó ekki orða bundist hér að það er sorglegt að sjá að stjórnarandstaðan á Alþingi er ekki tilbúin til þess að fylgja lífskjarasamningnum eftir og það styrkir mig í þeirri skoðun að hér er öflug ríkisstjórn í landinu sem er að fylgja eftir lífskjarasamningnum með fjölmörgum aðgerðum og þetta er eitt af þeim lykilmálum,“ sagði Ásmundur Einar.

Liðkað hefur verið fyrir veitingu stofnframlaga vegna nýbyggingarframkvæmda og er sveitarfélögum gert fært að sækja um stofnstyrki til byggingarverkefna sem þegar eru hafin. Enn fremur er nú stutt við uppbyggingu leiguíbúða á svæðum þar sem misvægi ríkir á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúðarhúsnæðis og þar sem góðar almenningssamgöngur eru fyrir hendi.