Categories
Fréttir

Allir séu á sömu blaðsíðunni um öryggi og mikilvæga þjónustu

Deila grein

03/02/2016

Allir séu á sömu blaðsíðunni um öryggi og mikilvæga þjónustu

ÞórunnHæstv. forseti. Í liðinni viku barst þingmönnum Norðausturkjördæmis bréf frá flugrekstrarstjóra Norlandair og þjálfunarstjóra Mýflugs sem hafa aðsetur á Akureyrarflugvelli. Innihald bréfsins er þess efnis að það vekur áhyggjur því að leiddar eru líkur að því að hugmyndir Isavia um skert þjónustustig leiði einnig til skertra öryggishagsmuna notenda þjónustunnar.
Akureyrarflugvöllur er þriðji stærsti flugvöllur landsins á eftir Reykjavík og Keflavík. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður frá náttúrunnar hendi og mikla flugumferð hefur flugumferðarstjórum tekist að halda uppi háum öryggisstuðli. Sá árangur grundvallast á radarstöð sem staðsett er við hlið flugbrautarinnar og stjórnast af flugumferðarstjórum í flugturni. Af ýmsum ástæðum stefnir í að flugumferðarstjórum fækki úr sex í þrjá. Ekki fyrr en nýlega hafa verið gerðar ráðstafanir til nýráðninga og þjálfunar á nýjum flugumferðarstjórum. Vitað er að þjálfun þeirra tekur tíma og hafa starfandi flugumferðarstjórar boðist til að dekka tímabilið með skipulagningu vakta, líkt og þeir hafa reyndar gert fram að þessu samkvæmt upplýsingum mínum.
Hæstv. forseti. Stefnan virðist vera sú að manna vaktir með starfsmönnum sem hafa einungis brot af þeirri menntun, starfsþjálfun og réttindum sem flugumferðarstjórar hafa. Þessir starfsmenn hafa til dæmis ekki réttindi til að veita radarþjónustu og því er það öryggi sem sú stöð veitir ekki til staðar þegar þeir verða á vakt.
Í ljósi mikillar flugumferðar um Akureyrarflugvöll og þess að hann er miðstöð sjúkraflugþjónustu sýnist mér afar mikilvægt að þessi þjónusta sé ekki skert. Ekki má gleyma því að flugvöllurinn er mikilvægur varaflugvöllur fyrir bæði innanlands- og utanlandsflug allan sólarhringinn. Mikilvægi þess að veita þjónustu með radarleiðsögn hafa dæmin sannað, en ekki gefst tími til að telja þau upp hér. Ágreiningur virðist um túlkun á því hvað skert þjónusta er. Það gengur ekki. Menn verða að vera á sömu blaðsíðunni þegar mál sem varða öryggi og mikilvæga þjónustu eru rædd. Ég efast ekki um að innanríkisráðherra skoðar þetta mál vel og treysti því að farsæl lausn finnist.
Þórunn Egilsdóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.