Categories
Fréttir

Allir umsækjendur fá boð um skólavist í dag – starfsbrautir í fleiri framhaldsskóla en áður!

Deila grein

23/06/2023

Allir umsækjendur fá boð um skólavist í dag – starfsbrautir í fleiri framhaldsskóla en áður!

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir að þau börn sem sóttu um nám á starfsbrautum framhaldsskóla fái boð um skólavist. Hann hefur lagt mikla áherslu á að öll börn fái boð um skólavist eins fljótt og auðið er. Mennta- og barnamálaraðuneytið ásamt Menntamálastofnun, í samvinnu við framhaldsskóla, hafa unnið að því síðustu vikur að tryggja að svo verði.

Liggur nú fyrir að öll börn sem sóttu um nám á starfsbraut fá boð um skólavist. Starfsbrautin er ætluð nemendum sem hafa fengið umtalsverða sérkennslu í grunnskóla og hafa ekki forsendur til að stunda nám á öðrum brautum.

„Umsóknum um nám á starfsbrautum hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Það er afar mikilvægt að við tökum vel utan um þennan viðkvæma hóp og tryggjum þátttöku ólíkra hópa, ekki bara i menntakerfinu heldur samfélaginu öllu,“ segir Ásmundur Einar.

Til þess að koma betur til móts við sem flest börn í framhaldskólakerfinu verða opnaðar starfsbrautir í Kvennaskólanum og Menntaskólanum í Reykjavík næsta haust auk þess sem nær allir framhaldsskólar stækka brautir sínar frá því sem verið hefur. Þetta er í fyrsta sinn sem Kvennaskólinn og MR innrita nemendur á starfsbraut.

„Ég er sérstaklega ánægður með góð viðbrögð skólafólks um land allt og finn fyrir miklum vilja til þess að tryggja að skólakerfið mæti öllum börnum. Það er mikið gleðiefni að Kvennaskólinn og Menntaskólinn í Reykjavík ætli að innrita nemendur á starfsbraut í fyrsta sinn í sögu skólanna,“ segir Ásmundur Einar.

Jafnframt hefur Verzlunarskóli Íslands lýst yfir vilja til að skoða uppbyggingu starfsbrautar í skólanum frá haustinu 2024. Þá hefur ráðherra sett af stað vinnu sem miðar að því að koma þessum málum í betri farveg til framtíðar.