Categories
Fréttir

„Allir umsækjendur með stúdentspróf muni fá jákvætt svar um skólavist“

Deila grein

10/07/2020

„Allir umsækjendur með stúdentspróf muni fá jákvætt svar um skólavist“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, ítrekar í færslu á facebook í dag sýn fyrri orð „að ríkisstjórnin væri búin að tryggja framhalds- og háskólum nægt fjármagn til að mæta metaðsókn í skólana“.

Háskólaráð Háskólans á Akureyri samþykkti á fundi sínum í morgun að allir umsækjendur með stúdentspróf muni fá jákvætt svar um skólavist fyrir lok dags í dag, 10. júlí 2020.

„Háskólinn á Akureyri gegnir lykilhlutverki við að tryggja jafnrétti til náms. Þessi frétt er mér mikið fagnaðarefni og staðfesting á að þrautseigja og samvinna skila árangri.

Það var engin tilviljun að ég fagnaði því sérstaklega í eldhúsdagsræðu að ríkisstjórnin væri búin að tryggja framhalds- og háskólum nægt fjármagn til að mæta metaðsókn í skólana.

Í tilfelli HA var þó fleira sem þurfti að skýra og nú hefur það verið gert.

Rúmlega 60% nemenda HA búa utan höfuðborgarsvæðisins og hafa rannsóknir sýnt að nemendur sem ljúka námi í heimabyggð eru mun líklegri til að starfa þar fimm árum eftir brautskráningu. Námsframboð HA skiptir landsbyggðina miklu máli, á næstu árum þarf líka að tryggja að þar verði í boði tæknifræðinám og nám í íslensku fyrir innflytjendur,“ segir Líneik Anna.