Categories
Fréttir

Almannavarnakerfið byggir að miklu leyti á sjálfboðastarfi björgunarsveita

Deila grein

09/12/2015

Almannavarnakerfið byggir að miklu leyti á sjálfboðastarfi björgunarsveita

ásmundur„Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma inn á veðrið sem gekk yfir landið í gær.
Fyrst vil ég þó taka undir það sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði um að fjárlagagerðina almennt og að óheppilegt væri að minni hluti hefði skamman tíma til þess að ljúka við nefndarálit og vinnu sína. Það hefur verið þannig í gegnum tíðina og allt of lengi að minni hlutinn hefur of knappan tíma til þess að vinna nefndarálit sín og annað því um líkt. Ég vonast þó til þess að þetta kunni að taka einhverjum breytingum þegar farið verður að vinna eftir nýju frumvarpi um opinber fjármál. En ég vil taka undir þetta. Þetta var líka svona á síðasta kjörtímabili og ugglaust þar á undan. Þarna getum við vissulega tekið okkur á.
En varðandi veðrið sem gekk yfir landið í gær vil ég taka undir með þeim sem hafa komið hér upp og verið að fjalla um það og þakkað fyrir það góða starf sem unnið er af fjölmörgum aðilum; Almannavörnum, Veðurstofunni, snjóflóðasérfræðingum, rafmagnsveitumönnum sem eru búnir að vera og eru enn að laga rafmagnsbilanir sem veðrið olli, Vegagerðinni, lögreglunni, Ríkisútvarpinu og öðrum fjölmiðlum og síðast en ekki síst björgunarsveitum landsins.
Ég vil segja það að ég er alveg sannfærður um að almenningur er mjög ánægður með þjónustu allra þessara aðila og það hvernig var staðið að þessu síðasta sólarhringinn, enda sáum við að allir tóku mark á viðvörunum, enginn var á ferð o.s.frv.
En það er full ástæða til þess að taka almennt umræðu um almannavarnakerfið og það sjálfboðastarf sem margir vinna meðal annars í björgunarsveitunum. Það er full ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt með stóraukinni komu ferðamanna að til að mynda björgunarsveitir fái ákveðna hlutdeild og aukna hlutdeild í tekjustofnum sem til verða vegna ferðaþjónustunnar.
Við eigum þetta gríðarlega góða almannavarnakerfi sem að miklu leyti byggir á sjálfboðastarfi björgunarsveita og við eigum að leita allra leiða til þess að efla það og styrkja. Þetta er umræða sem (Forseti hringir.) mér finnst að við þingmenn og stjórnvöld þurfum að fara að taka í auknum mæli, hvernig við getum eflt og bætt umgjörð björgunarsveita og annarra sem vinna slík sjálfboðastörf.“
Ásmundur Einar Daðason — störf þingsins 8. desember 2015.