Categories
Fréttir

Hvernig er verðbólgan mæld – ekkert samræmi?

Deila grein

09/12/2015

Hvernig er verðbólgan mæld – ekkert samræmi?

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Í fyrramálið mun peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynna um stýrivexti. Góður félagi minn sendi mér nokkrar spurningar sem mig langar að fara hér með, sem beinast að seðlabankastjóranum. Hér segir, með leyfi forseta:
„Í síðustu viku, nánar tiltekið fimmtudaginn 3. desember, ákvað 25 manna stjórnarráð Seðlabanka Evrópu að lækka stýrivextina úr 0,1% niður í mínus 0,3% til að örva verðbólgu. Sú verðbólga sem menn eru ósáttir við hjá ECB mældist 0,1% í október, svokölluð samræmd vísitala neysluverðs. Sama vísitala fyrir Ísland mældi verðbólguna í október vera 0,34%, samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofunnar, en birtist sem 0,4% á vef Eurostat. Á vef Eurostat má einnig sjá að hækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs var álíka há á Íslandi og í Hollandi, umtalsvert lægri en í Svíþjóð og í Noregi mælist hún 2,4%. Í Danmörku var þessi breyting hins vegar á heilu ári 0,2%.“
Ástæðan fyrir því að ég dreg athyglina að þessu er að peningastefnunefnd notar verðbólgumælingu frá Hagstofunni sem mat verðbólguna vera 1,8% í október. Mæld á annan hátt en samræmda vísitalan sem ECB notar. Spurningin er hvers vegna Seðlabankinn og peningastefnunefnd meta ekki svo ólíka verðbólgu, þ.e. 0,1% og 0,34%, á svona gjörólíkan hátt og telur að 0,34% verðbólga krefjist þess að stýrivextir séu 6,25% sem er sú vaxtatala sem er kynnt í fréttatilkynningu til erlendra fréttastofa. Þegar seðlabankar í nágrannalöndunum okkar, m.a. með meiri hækkun húsnæðisverðs og meiri hækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs, telja nauðsynlegt að halda stýrivöxtum í kringum 0%.
Þá segir maður líka: Hafa Seðlabankinn og peningastefnunefnd metið hverjir stýrivextir þyrftu að vera ef notuð væri samræmd vísitala neysluverðs til að meta verðbólgu á Íslandi? Hvers vegna notar Seðlabankinn annað viðmið við ákvarðanir sínar um stýrivexti en þjóðir í kringum okkur? Telur seðlabanki að 25 manna stjórnarráð ECB hafi minni skilning á virkni peningastefnu en 5 manna peningastefnunefnd SÍ? Ef ekki, hvers vegna eru þá stýrivextir á Íslandi 6,25% en mínus 0,3% hjá ECB?“
Þorsteinn Sæmundsson — störf þingsins 8. desember 2015.