Categories
Fréttir

Alþjóðlegi mannréttindadagurinn

Deila grein

11/12/2019

Alþjóðlegi mannréttindadagurinn

„Þann 10. desember ár hvert er degi mannréttinda fagnað um allan heim. Dagsetningin miðast við það þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna var með mannréttindayfirlýsingu 10. desember 1948 og er þar á ferð fyrsta alþjóðlega skýringin á mannréttindum í heiminum, sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í störfum þingsins í gær.
„Mannréttindi eru grundvallaratriði sem allir einstaklingar hafa óháð þjóðerni, búsetu, kyni, tungumálum, litarhætti, trúarbrögðum, kynhneigð, kynvitund eða annarri stöðu. Mannréttindi hafa verið skilgreind í alþjóðasamningum, svæðisbundnum samningnum og í landsrétti flestra ríkja. Þau fela í sér alþjóðlega samþykktar kröfur til ríkja um að vernda mannhelgi borgara sinna.“

„Sem fyrr skorar Ísland hátt á flestum alþjóðlegum samanburðarlistum yfir stöðu mannréttinda en það þýðir ekki að slá slöku við því að sífellt má gera betur á því sviði. Mannréttindi eru ekki fullkomin hér frekar en nokkurs staðar annars staðar. Við eigum að halda umræðu um þau á lofti, velta upp spurningum um hvar megi gera betur, hvar megi draga lærdóm, hvert hlutverk okkar sem smáþjóðar á alþjóðavettvangi sé o.s.frv.
Virðingarleysi fyrir mannréttindum hefur leitt af sér djúpstæðan vanda sem erfitt er að kljást við, t.d. í þróunarríkjunum, og nefni ég sérstaklega fátækt, misskiptingu auðs og spillingu. Virðing fyrir mannréttindum er forsenda þess að hægt sé að færa hlutina til betri vegar til frambúðar.“

„Ég vek því athygli á viðburðum á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Mannréttindaskrifstofu Íslands sem fram fóru í morgun í tilefni dagsins þar sem m.a. þessum málefnum var velt upp. Kjörtímabili Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fer senn að ljúka og munum að á vettvangi þess getum við sem lítið ríki haft mikil áhrif,“ sagði Halla Signý.