Categories
Fréttir

Ásýnd og virðing Alþingis

Deila grein

04/10/2016

Ásýnd og virðing Alþingis

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Eins og hæstv. forseti kynnti verður eftir þennan dagskrárlið gert hlé að nýju til kl. 17 og var búið að fresta þingfundi þegar um tvær klukkustundir, væntanlega vegna viðræðna formanna um tilhögun starfa okkur á þingi fram undan og það er vel. Ég hef sagt það hér og segi enn að samstarfið hefur gengið vel og virðulegur forseti hefur haldið vel á málum. Samráðið hefur verið þétt um framvindu þingstarfa og samvinna þingmanna þvert á flokka í nefndum hefur verið góð.
Ég vil segja vegna þeirrar umræðu og athugasemda undir liðnum um fundarstjórn forseta um starfsáætlun að auðvitað er ekkert að því að stjórnarandstöðuþingmenn geri athugasemd við fundarstjórn forseta og komi sjónarmiðum sínum að. Ég hefði líklegast gert það sjálfur við þessar aðstæður á leið í kosningar og spennan að aukast. En það er líka mikilvægt, af því að við ræðum gjarnan um ásýnd og virðingu Alþingis, að þrátt fyrir umræðu og athugasemdir stjórnarandstöðunnar, og ég ítreka að þær eiga fullan rétt á sér, finnst mér rétt að koma því að að ríkt hefur gagnkvæmur og einlægur vilji til samráðs og samvinnu og til þess að ljúka mikilvægum málum þannig að við viðhöldum skilvirkni og verjum ásýnd Alþingis, verjum faglega vinnu og tíma sem fer í undirbúning málefna, umræðu málanna í þinginu, umsagnir sérfræðinga og hagsmunaaðila og eftirfylgni þeirra í nefndum, viðbrögð í nefndum, undirbúning og málatilbúnað nefndarmanna og framsögumanna.
Auðvitað glatast ekki öll sú vinna, en dýrmætum tíma er sóað og ekki er séð fyrir endann á framgangi margra hverra. Það er því ekkert síður vegna skilvirkni Alþingis en ásýndar þess að ég fagna því að við náum saman um stóru málin og ljúkum þessu þingi og kjörtímabili á þeim nótum að Alþingi sé sómi að.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 4. október 2016.