Categories
Fréttir

Undrast fækkun á póstdreifingarstöðum

Deila grein

28/09/2016

Undrast fækkun á póstdreifingarstöðum

flickr-Líneik Anna Sævarsdótir„Virðulegi forseti. Það líður að lokum þingsins. Síðustu vikur hefur mikil vinna farið fram í nefndum. Samvinna stjórnar og stjórnarandstöðu er að jafnaði góð í þeim nefndum sem ég starfa í. Oft næst þverpólitísk samstaða um breytingar eða hluta þeirra. Í öðrum málum er ágreiningur og í mörgum tilfellum er slíkur ágreiningur mikilvægur liður í að bæta mál. Nefndarvinnu er nú lokið eða að ljúka í nokkrum mikilvægum málum sem ég legg mikla áherslu á að skili sér til umræðu og afgreiðslu í þinginu. Þetta eru til dæmis mál eins og frumvarp til laga um námslán og námsstyrki, losun fjármagnshafta og stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.
Það skiptir okkur öll máli sem hér störfum að sem mest af þeirri vinnu sem við höfum lagt á okkur í mismunandi málum á öllum stigum skili sér í gegnum þingið. Því tel ég mjög mikilvægt að við fáum tækifæri til að vinna hér áfram í einhverja daga fyrir kosningar.
Þá langar mig líka að koma inn á mál sem á pappírnum sýnist vera hagsmunamál lítils hluta landsmanna en er sennilega stærra mál en okkur grunar, það er póstdreifingin í landinu. Eins og kunnugt er var póstdreifingardögum í dreifbýli fækkað á vormánuðum. Það kann að vera skynsamlegt en er algerlega fráleitt að farið sé í það verkefni öðruvísi en að í framhaldinu verði farið í endurskoðun á fleiri þáttum í póstdreifingunni, svo sem skiptingunni í A- og B-póst, hverjir geta tekið að sér póstdreifingu og fleira. Þá undrast ég að Póst- og fjarskiptastofnun hafi fallist á umsókn rekstrarleyfishafa um að fækka póstdreifingardögum á smærri þéttbýlisstöðum, stöðum sem ýmist eru skilgreindir sem þéttbýli eða dreifbýli, að því er virðist eftir hentugleika hverju sinni. Þetta á til dæmis við um staði eins og Borgarfjörð Eystri og Hvanneyri.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 28. september 2016.