Categories
Fréttir

Átaksverkefni um allt að 260 sumarstörf fyrir námsmenn

Deila grein

30/03/2016

Átaksverkefni um allt að 260 sumarstörf fyrir námsmenn

EÞHEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að tillögu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að verja um 130 milljónum kr. úr sjóðnum í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn í sumar.
Þetta er í sjöunda sinn sem efnt er til átaksverkefnis af þessu tagi og hefur Vinnumálastofnun ávallt annast skipulagið. Svo verður einnig að þessu sinni og hefur stofnunin sent forstöðumönnum opinberra stofnana, bæjarstjórum og tengiliðum þeirra bréf þar sem verkefnið er kynnt.
Atvinnuástand meðal ungs fólks hefur batnað mikið undanfarið og telur Vinnumálastofnun ljóst að flestir geti fengið sumarstarf af einhverju tagi án atbeina verkefnis af þessu tagi. Aftur á móti hafa námsmenn á háskólastigi átt erfitt með að fá störf sem tengjast námi þeirra og hefur hlutfall háskólamenntaðra atvinnuleitenda aukist. Marga þeirra skortir því reynslu á sínu fagsviði og er markmiðið með átaksverkefninu að bæta þar úr og styrkja stöðu þannig námsmanna til framtíðar. Er horft til góðrar reynslu hvað þetta varðar á undanförnum árum.
Vinnumálastofnun hvetur stofnanir ríkis og sveitarfélaga til að hefja undirbúning að átakinu og móta störf og verkefni sem geta fallið að því. Vonast er til að með átakinu verði til allt að 260 störf fyrir námsmenn á háskólastigi sem skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga.
Störfin verða auglýst á vef Vinnumálastofnunar og með auglýsingu um átakið í fjölmiðlum og er stefnt að því að birta auglýsingarnar um miðjan apríl.