Categories
Fréttir

Atvinnulífið í lykilhlutverki í loftslagsmálum

Deila grein

08/02/2022

Atvinnulífið í lykilhlutverki í loftslagsmálum

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi loftslagsmál á Alþingi á liðinni viku. Sagði hún mikilvægt að þessi mál væru tekin upp reglulega hér í þingsal. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið í stjórnarsáttmála um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Vorþingið mun síðan lögfesta markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Hafin er vinna við að uppfæra og aðlaga aðgerðaáætlun í loftslagsmálum að þessum markmiðum.

„Ég vil leggja áherslu á samráð og samvinnu við að kortleggja verkefnið og leiðir að markmiðunum. Við höfum raunveruleg tækifæri til að ná þessum markmiðum í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs, samvinnu ólíkra atvinnugreina, samvinnu atvinnulífs og háskóla um nýsköpun, samvinnu heimila og atvinnulífs og þannig mætti áfram telja. Það er mikill metnaður í samfélaginu sem getur skilað okkur langt. Þar er atvinnulífið í lykilhlutverki í samspili við þá umgjörð og hvata sem stjórnvöld setja,“ sagði Líneik Anna.

Líneik Anna sagði að atvinnulífið vera á tánum að svo mörgu öðru leyti því að vinna í loftslagsmálum væri liður í góðum rekstri fyrirtækja.

„Útgerðin er á fullu við að draga úr útblæstri og hefur sett sér markmið um að gera enn betur. Stór fyrirtæki vinna með skógarbændum að bindingu kolefnis. Þróun svokallaðra óvirkra rafskauta getur leitt til stökkbreytinga við að draga úr losun kolefnis frá álverum. Öll ræktun bindur kolefni í gróðri og til að ná sem bestum árangri á því sviði er mikilvægt að bændur geti nýtt þekkingu sína til kolefnisbindingar í landi og við ræktun orkujurta. Viðarnytjar skapa möguleika til að stuðla að sjálfbærni einstakra byggða og svo mætti áfram telja,“ sagði Líneik Anna að lokum.