Categories
Fréttir

„Atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk“

Deila grein

10/06/2024

„Atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins stóraukna ásókn í verknám og forgang Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, um stækkun verk- og starfsmenntaskóla um allt land á kjörtímabilinu. Eins hafi átak til að auka aðsókn í verk- og starfsnám í tíð Lilju Alfreðsdóttur sem menntamálaráðherra farið fram úr okkar björtustu vonum.

„Síðustu ár hefur atvinnulífið verið að kalla eftir iðnmenntuðu starfsfólki. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum og atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk,“ sagði Halla Signý.

„Í morgun las ég frétt um það að metfjöldi nemenda taki nú sveinspróf í múrverki við Tækniskólann og að aukin jákvæðni sé í garð iðnnáms. Það hefur ekki alltaf verið raunin. Sífellt fleiri nemendur koma nú beint úr grunnskóla í iðnnám og það er vel. Það er greinilegt að aðgerðir sem miða að því að efla iðnnám eru að bera árangur,“ sagði Halla Signý.

„Nú þegar liggur fyrir samkomulag um kostnaðarskiptingu milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga til að ráðist verði í stækkun Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Menntaskólans á Ísafirði, Fjölbrautaskóla Suðurnesja ásamt Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Verkmenntaskólanum á Akureyri. Til viðbótar verður ráðist í slíka samningagerð við Fjölbrautaskóla Suðurlands, Borgarholtsskóla og Verkmenntaskóla Austurlands og stefnt er á að viðbygging við alla þessa skóla komist í framkvæmdafasa á þessu kjörtímabili. Þessu til viðbótar stendur til að byggðar verði nýjar höfuðstöðvar Tækniskólans í Hafnarfirði,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Síðustu ár hefur atvinnulífið verið að kalla eftir iðnmenntuðu starfsfólki. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum og atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk. Á ferðum mínum um kjördæmið hef ég heyrt frá fjölda fyrirtækja sem hafa næg verkefni en skortir tilfinnanlega iðnmenntað starfsfólk. Í morgun las ég frétt um það að metfjöldi nemenda taki nú sveinspróf í múrverki við Tækniskólann og að aukin jákvæðni sé í garð iðnnáms. Það hefur ekki alltaf verið raunin. Sífellt fleiri nemendur koma nú beint úr grunnskóla í iðnnám og það er vel. Það er greinilegt að aðgerðir sem miða að því að efla iðnnám eru að bera árangur. Í ljósi stóraukinnar ásóknar í verknám hefur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sett stækkun verk- og starfsmenntaskóla um allt land í forgang á þessu kjörtímabili. Í tíð Lilju Alfreðsdóttur sem menntamálaráðherra var farið í átak til að auka aðsókn í verk- og starfsnám. Það átak fór fram úr okkar björtustu vonum. Þessari auknu ásókn hafa þó vissulega fylgt vaxtarverkir og hafna hefur þurft hundruðum umsækjenda vegna plássleysis. Þeirri þróun á nú að snúa við. Nú þegar liggur fyrir samkomulag um kostnaðarskiptingu milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga til að ráðist verði í stækkun Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Menntaskólans á Ísafirði, Fjölbrautaskóla Suðurnesja ásamt Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Verkmenntaskólanum á Akureyri. Til viðbótar verður ráðist í slíka samningagerð við Fjölbrautaskóla Suðurlands, Borgarholtsskóla og Verkmenntaskóla Austurlands og stefnt er á að viðbygging við alla þessa skóla komist í framkvæmdafasa á þessu kjörtímabili. Þessu til viðbótar stendur til að byggðar verði nýjar höfuðstöðvar Tækniskólans í Hafnarfirði.

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að þetta átak hafi tekist svo vel eins og raun ber vitni. Ég segi: Vel gert.“