Categories
Fréttir Greinar

Auðlindir Íslands og jarðakaup erlendra aðila

Deila grein

29/03/2025

Auðlindir Íslands og jarðakaup erlendra aðila

Nú á dög­un­um mælti ég ásamt þing­flokki Fram­sókn­ar fyr­ir þings­álykt­un um að tak­marka jarðakaup er­lendra aðila. Til­lög­unni er ætlað að tryggja lang­tíma­hags­muni Íslands með því að verja auðlind­ir þjóðar­inn­ar fyr­ir of víðtæku eign­ar­haldi er­lendra fyr­ir­tækja og ein­stak­linga.

Alþjóðleg eft­ir­spurn vek­ur spurn­ing­ar um ís­lenskt eign­ar­hald

Í kjöl­far auk­inn­ar alþjóðlegr­ar eft­ir­spurn­ar eft­ir nátt­úru­auðlind­um hef­ur áhugi er­lendra aðila á ís­lensk­um jörðum auk­ist veru­lega. Þetta á sér­stak­lega við um jarðir sem hafa verðmæt vatns­rétt­indi eða aðgang að orku­auðlind­um á borð við jarðhita og vindorku, eða svæði sem eru rík af jarðefn­um. Gott dæmi um slík­an áhuga er ný­leg jarðakaup á Mýr­dalss­andi, þar sem stefnt er að meiri hátt­ar út­flutn­ingi jarðefna.

Upp­haf­lega voru ís­lensk lög um nýt­ingu jarðefna sett í þeim til­gangi að tryggja bænd­um og Vega­gerðinni aðgang að sandi og möl til fram­kvæmda inn­an­lands – ekki til út­flutn­ings. Mark­miðið var aldrei að selja Ísland bók­staf­lega úr landi.

Gæt­um að auðlind­um okk­ar til framtíðar

Til­lag­an ger­ir ráð fyr­ir að at­vinnu­vegaráðherra skipi sér­fræðihóp, í sam­ráði við aðra ráðherra, til að und­ir­búa frum­varp um frek­ari tak­mark­an­ir á jarðakaup­um er­lendra aðila. Mark­mið þess er að tryggja að eign­ar­hald á ís­lensk­um auðlind­um verði áfram að meg­in­stefnu ís­lenskt.

Um leið verði Íslandi áfram haldið opnu fyr­ir alþjóðleg­um viðskipt­um og er­lendri fjár­fest­ingu, en þá frem­ur með nýt­ing­ar­leyf­um en beinu eign­ar­haldi er­lendra aðila á landi og auðlind­um.

Sér­fræðihóp­ur skipaður til að móta skýra stefnu

Í ljósi geopóli­tískra hags­muna og víðtækra framtíðaráhrifa er nauðsyn­legt að stjórn­völd taki af­ger­andi skref til að móta skýra og mark­vissa stefnu á þessu sviði. Sögu­leg­ar bar­átt­ur Íslend­inga fyr­ir eign­ar­haldi á nátt­úru­auðlind­um, svo sem land­helg­is­bar­átt­an og stofn­un Lands­virkj­un­ar, eru góðar fyr­ir­mynd­ir um hvernig tryggja megi lang­tíma­hags­muni þjóðar­inn­ar.

Nýt­ing­ar­leyfi – leið til að laða að er­lenda fjár­fest­ingu án þess að tapa auðlind­um

Þótt alþjóðleg viðskipti séu lyk­ill­inn að vel­meg­un Íslands og mik­il­væg upp­spretta at­vinnu­sköp­un­ar þýðir það ekki að auðlind­ir lands­ins þurfi að selja úr landi án eft­ir­lits. Reynsl­an frá öðrum lönd­um, til dæm­is Ástr­al­íu, sýn­ir að hægt er að laða að er­lenda fjár­fest­ingu með því að veita nýt­ing­ar­leyfi án þess að glata stjórn á auðlind­un­um sjálf­um. Mörg ríki inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins hafa þegar gripið til mun rót­tæk­ari ráðstaf­ana en Ísland til þess að verja land sitt og auðlind­ir.

Stefna til framtíðar

Ljóst er að eign­ar­hald á auðlind­um lands­ins mun gegna lyk­il­hlut­verki við að tryggja efna­hags­lega vel­ferð og sjálf­stæði þjóðar­inn­ar í alþjóðasam­fé­lag­inu. Þings­álykt­un­ar­til­lag­an er því mik­il­væg­ur grunn­ur að ábyrgri auðlinda­stjórn sem get­ur komið í veg fyr­ir að kom­andi kyn­slóðir líti til baka með eft­ir­sjá yfir því hvernig Íslend­ing­ar nú­tím­ans gættu lands­ins okk­ar og auðlinda.

Rækt­um framtíðina og stuðlum að sjálf­bærri nýt­ingu auðlinda lands­ins, styrk­ingu lands­byggðar­inn­ar og öfl­ugri vel­ferð þjóðar­inn­ar til framtíðar.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. mars 2025.