Categories
Fréttir Nýjast

Ávarp Einars Þorsteinssonar borgarstjóra

Deila grein

24/04/2024

Ávarp Einars Þorsteinssonar borgarstjóra

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, ávarpaði 37. Flokksþing Framsóknar sem fram fór um liðna helgi. Einar er fyrsti borgarstórinn í sögu Framsóknar og fer afar vel af stað með sínu vaska liði.

Ræðu Einars má sjá hér: https://fb.watch/rFeX9tzf7w/

Ræða borgarstjóra í heild:

Kæru vinir og félagar

Þau gæfustu lifa af – en ég kem betur að því á eftir.

Mikið er gaman að vera hérna með ykkur – á þessum áhugverðu tímum í íslenskum stjórnmálum.

Við erum á tímum þar sem við erum að takast á í umræðunni um grundvallarhugtök, hugtök sem lýsa því hvernig við ætlum að leysa stóru áskoranir samfélagsins. Og ég fyllist stolti þegar ég lít hérna yfir salinn – stolti yfir því að tilheyra hópi fólks sem velur að mæta hingað á laugardegi til þess að ræða hvað við getum gert til þess að samfélagið okkar megi þroskast, þróast og verða betra.

Og áskoranirnar eru stórar. Íslenskt samfélag vex hratt, og í Reykjavík hefur vöxturinn aldrei verið jafn hraður. Ríflega 4000 manns fluttu til borgarinnar í fyrra og á hverri viku flytja 90 manns til höfuðborgarsvæðisins. Þetta reynir á alla innviði, leik og grunnskóla, félagsþjónustu, húsnæðismálin, þjónustu við fatlað fólk, og svo auðvitað samgöngumálin. Þess vegna er gott að vera í flokki sem hefur málefni fjölskyldna í forgrunni, stendur með þeim sem höllum fæti standa og hefur leitt stærsta samgönguverkefni Íslandssögunnar sem er samgöngusáttmálinn á höfuðborgarsvæðinu.

Það er nefnilega þannig að það er útilokað fyrir höfuðborgarsvæðið allt að halda áfram að vaxa nema allar þær fjölbreyttu innviðaframkvæmdir sem sáttmálanum fylgja – komist til framkvæmda. Og auðvitað er þetta risastórt mál í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Því það þýðir ekkert að segja fólki að breyta ferðavenjum sínum, að fækka bílferðum – nema bjóða upp á raunverulegan valkost með öflugum almenningssamgöngum. Og þetta er ekki einkamál höfuðborgarsvæðisins því höfuðborgin þjónar landinu öllu.

Í drögum að borgarstefnu sem Sigurður Ingi formaður okkar setti í gang kemur fram að samfélagslegt áhrifasvæði Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins markast af Hvítá-Hvítá, þ.e. um Suðurnes, austur á Selfoss og norður að Borgarnesi. Íbúafjöldi telur um 318 þúsund íbúa eða tæp 82% þjóðarinnar.

Þá er í drögunum lagt til að Akureyri yrði skilgreind sem svæðisborg – Áhrifasvæði Akureyrar nær um Eyjafjörð og að einhverju marki austur til Húsavíkur og Mývatnssveitar. Íbúafjöldi telur rúmlega 30.000 manns eða um 8% þjóðarinnar. Samanlagt nær áhrifasvæði höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar til 90% þjóðarinnar. 

Ég nefni þetta því ég tel afar mikilvægt að við ákvarðanir um skipulag og uppbyggingu innviða verði horft á höfuðborgarsvæðið og Akureyri og áhrifasvæðin bæði sem tvær heildir þegar kemur að atvinnusókn, búsetu og samgöngum innan þess. Þetta þýðir ekki að við eigum að gleyma öðrum landshlutum, þvert á móti – en það er mikilvægt að taka ákvarðanir sem byggja á þessari sýn um hagsmuni áhrifasvæðisins.

En hvernig leysum við stórar áskoranir?

Framsóknarflokkurinn hefur í meira en heila öld starfað á grundvelli þeirrar hugsjónar að það borgi sig að vinna saman. Við höfum alltaf trúað því að summa hlutanna geti orðið stærri en heildin með góðri samvinnu. Okkar leiðarljós gegnum öll þessi ár er það að ef við nálgumst verkefni dagsins og áskoranir morgundagsins öfgalaust af miðjunni og vinnum saman – þá náum við árangri. Samvinna virkaði í gamladaga og samvinna virkar í dag.

Það var samvinna sem leiddi af sér uppbyggingu um allt land á þeim tímum sem við vorum fátækasta þjóð Evrópu. Það bjuggu 90 þúsund manns í landinu, við vorum enn undir Dönum – og Reykvíkingar voru 15 þúsund. Og á þessum tímum hófst á grundvelli samvinnu uppbygging um allt land á sviði skólamála, verslunar, og lýðheilsumála sem renndu stoðum undir sjálfstæða þjóð.

Samfélagið á þessum tíma beinlínis hrópaði á samhent átak fólks sem vildi stuðla að nauðsynlegum framförum og jákvæðum breytingum. Þarna varð til samvinnuhugsjónin – leiðarstef okkar Framsóknarfólks – sem hefur skilað okkur umbyltingu á lífsháttum og kjörum landsmanna gegnum árin. Þetta ákall frá almenningi er enn hærra í dag.

Charles Darwin setti fram kenninguna um dýraríkið – að þau hæfustu lifðu af. Herbert Spencer sem var heimspekingur og félagsfræðingur ákvað að færa þetta yfir á samfélag manna – og meðal annars uppúr þeirri hugmynd spratt sú hugmynd að keppni – þar sem maður keppir um gæði lífsins við næsta mann skapi mestu velsældina. Þetta er grunnur markaðskerfisins – sem í grunninn er afar mikilvægt.

En við vitum að samfélagið er ekki svona einfalt – afleiðingar óheflaðrar markaðshyggju eru aukinn ójöfnuður og við sjáum að þótt jöfnuður sé mjög mikill á Íslandi þá er hann að grafa undan stærstu lýðræðisríkjum í kringum okkur. Besta – eða versta birtingarmyndin af því er sú – að allar líkur eru á því að DonaldTrump verði kosinn aftur forseti bandaríkjanna. Við sjáum slíka skautun tæta samfélög í sundur og búa til aðstæður þar sem fólk hatast og vinnur á móti hvort öðru. Mótefnið við þessu ástandi hlýtur að vera öfgalaus samvinna af miðjunni.

Og talandi um Trump – við notum aldrei andheitið við orðið polarisation/skautun– en ef við hugsum það aðeins þá er það auðvitað orðið samvinna – það er vera tilbúin að hlusta, taka mark á og virða skoðanir annarra og vinna saman að hagsmunum samfélagsins.

Þau hæfustu lifa af – Ég rakst á ansi góða setningu frá rithöfundinum Sverri Norland um daginn. Hann sagði – þau gæfustu lifa af.  Í dýraríkinu eru það dýrin eða lífverurnar sem vinna saman, meðvitað eða ómeðvitað, býflugan sem frjóvgar blómið, sveppurinn sem lifir á trénu, tréð sem veitir smáblómunum skjól. Þið vitið hvað ég er að fara. Þetta á þó enn betur við um samfélag manna. Við sjáum það af framlagi Framsóknar til samfélagsins í gegnum áratugina.

Það er áhugavert að velta orðanotkun fyrir sér í þessu samhengi. Það má velta fyrir sér þeim fjölmörgu orðum í íslenskri orðabók sem eiga það sameiginlegt að byrja á „sam“. Samvinnufélag, saman, samstarf, samheldni, samvinna, samfélag, samskipti… Allt er þetta jákvæð orð.

Ég sagði áðan að við værum á þeim tímum þar sem við þurfum að takast á við stórar áskoranir. Og sem betur fer er samvinnan við lýði. Og ekki bara hér á Íslandi – heldur fer hún vaxandi erlendis.

Meira að segja í mekka kapitalismans í Bandaríkjunum er kaupfélagshugsjónin – sem við Framsóknarfólk þekkjum svo vel – að ryðja sér til rúms undir heitinu co-ops. Labbið niður Manhattan og kíkið inn í matvörubúð undir merkjum co-ops. Íbúinn greiðir vægt gjald en tryggir sér aðgang að gæða matvælum og góðri þjónustu. Þetta rekstarform þrífst í fleiri geirum. Fólks stofnar fyrirtæki, húsnæðisfélögeða kaupir búgarð og rekur í sameiningu. Þetta er áhugaverð þróun.

Og hvað er deilihagkerfi annað en samvinnulausn? Hopphjólin sem skiptumst á að nota, airbnb, fataloppurnar – allt byggir þetta á að einn nýtir og svo næsti. Og á stærri skala þá sjáum við gríðarlega verðmætasköpun í viðskiptalífinu á grundvelli samvinnu. Allir klasarnir – Orkuklasinn, Sjávarklasinn, Fjártækniklasinn, allt gengur þetta út á að fólk sameinast yfirleitt undir einu þaki, deilir þekkingu og reynslu og vinnur saman að því að þróa lausnir sem gagnast samfélaginu en skapa líka arð fyrir eigendur. Húsið Gróska í Vatnsmýrinni er frábært dæmi um samvinnuhugsun þar sem þekkingarfyrirtæki vinna saman innan háskólasamfélagsins til að þróa lausnir og skapa verðmæti.

Hringrásarhagkerfið er dæmigerð samvinnuhugsun – þar sem einn nýtir afurðir annarra til að skapa verðmæti og grunnurinn er ávallt samvinna – eitt frábært dæmi um þetta er fyrirtækið Kerecis sem nýtir fiskroð frá fiskvinnslunni á Ísafirði og þróaði lækningavöru – og fyrirtækið var selt fyrir 175 milljarða í fyrra. Samvinna og markaðshagkerfi eru því ekki andstæður heldur er samvinnan tól til að nýta betur þekkingu og ná meiri árangri.

Við fulltrúar Framsóknar í Reykjavík höfum lagt kapp á að auka samvinnu og samtal á milli flokka í borginni. Ég held að það gangi ágætlega en borgarstjórn var hástökkvari í síðustu traustsmælingu Gallup þar sem traust á borgarstjórn jókst um 7% frá síðustu mælingu. Áskoranirnar eru margar í borginni. Við leiðum meirihlutann úr stóli borgarstjóra í fyrsta skipti og eitt af mínum fyrstu verkefnum var að fara út í öll hverfi og eiga beint og milliliðalaust samtal við borgarbúa.

Þessir fundir hafa verið afar góðir og mikil næring fyrir mig að hlusta á sjónarmið borgarbúa. Það er nefnilega hlutverk okkar stjórnmálamanna að hlusta og taka skoðanir þeirra sem fela okkur umboð sitt til greina. Jafnvel þótt við þurfum stundum að taka erfiðar ákvarðanir.

Kæru vinir – Niðurstaða mín er sú að maður gerir ekkert einn – Verkefnin okkar, stór og smá – ganga betur og ganga upp yfir höfuð ef við finnum sameiginlega fleti og vinnum saman. Þetta höfum við Framsóknarfólk alltaf vitað og almenningur veit það líka. Það er frábært að finna kraftinn sem er hér í salnum, njótum flokksþingsins og höldum áfram að vinna verkin og skila árangri. Til þess erum við.