Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, í Þjóðleikhúsinu 16. desember 2016.
****
Kæra framsóknarfólk – ágæta samkoma.
Saga Framsóknarflokksins er löng og í dag fögnum við 100 ára afmæli flokksins sem stofnaður var 16. desember 1916. Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur á sér lengri sögu.
Eins og vænta má hafa verkefnin verið mörg og misjöfn og verið í takt við þau baráttumál sem íslenska þjóðin hefur þurft að takast á við í þennan tíma. Höfum það í huga að 1916 var Ísland ekki sjálfstætt ríki – baráttuhugur aldamótakynslóðarinnar var farinn að skila árangri og frelsiskyndlar hugsjónamanna loguðu skært – ekki síst hjá ungmennafélögum og samvinnufélögum sem að verulegu leyti kusu Framsóknarflokkinn sem málsvara sinn. Við höfðum eignast Stjórnarráð, Háskóla og okkar eigið skipafélag og stutt var í sjálfstæðið.
Eins og vænta mátti var ekki alltaf einhugur meðal landsmanna um leiðir þótt markmiðin væru oftast þau sömu. Framsóknarflokkurinn haslaði sér völl á miðju stjórnmálanna – ekki af því að þar væri helst atkvæða að leita – heldur vegna þess að veröldin er ekki í svörtu og hvítu. Eindregnar skoðanir til hægri og vinstri hafa aldrei heillað Framsóknarfólk, né nokkuð í þá veru að afsala sjálfstæði landsins og réttindum í hendur annarra þjóða.
Fyrir stefnu sína var oft vegið að flokknum – hann sagður opinn í báða enda – stefna hans væri miðjumoð og allt þar fram eftir götunum. Þetta má alveg hafa í huga í dag þegar flokkar keppast við að skilgreina sig á miðjunni í þeirri von að þar sé helst fylgis að vænta. Hér er ekki tími til að rekja nákvæmlega sögu flokksins, en Framsóknarflokkurinn hefur átt því láni að fagna að hafa alltaf haft á að skipa dugmiklum stjórnendum – forystufólki sem markað hefur spor í Íslandssöguna.
Góðir gestir.
Framsóknarflokkurinn átti erindi við þjóðina fyrir hundrað árum og hann á enn erindi við þjóðina. Baráttan fyrir félagslegu jafnrétti, þar sem hverjum manni er gert kleift að njóta sín í félagi manna, mun alltaf verða til staðar og á því sviði vitnar sagan um að Framsóknarflokkurinn stendur heill að störfum. Vissan um að samvinna manna skili okkur betur fram á veg, en hver fyrir sig, er grunnstefið í okkar starfi sem og einkunnarorðin sígildu; manngildi ofar auðgildi.
Samfylgd með þjóðinni í hundrað ár segir sína sögu. Kannski fyrst og fremst þá, að Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð verið mikilsvert afl á vettvangi íslenskra stjórnmála. Framsóknarflokkurinn hefur notið trausts landsmanna og sannað gildi sitt og það sem hann stendur fyrir.
Árin frá stofnun flokksins hafa verið, hvert með sínu sniði, áhugaverð. Áskoranir verið margvíslegar og sigrarnir margir. Okkur, sem uppi erum núna og lifum og hrærumst í augnablikinu, finnst kannski að merkilegustu tímar allra tíma, séu einmitt núna. En saga lands og þjóðar á 20. öldinni, er saga gríðarlegra breytinga í heiminum öllum. Sama hvar drepið er niður fæti.
Hvað gerðist í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokksins sem settist að völdum árið 1927 undir forystu Tryggva Þórhallssonar, sem lýst var sem mótunarmanni Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar? Meðal helstu verka var að stórauka stuðning við landbúnað, ný jarðræktarlög voru sett, Búnaðarbankinn var stofnaður og samgöngur stórbættar. Ríkisfyrirtæki voru stofnuð og má þar nefna, Síldarbræðslu ríkisins á Siglufirði, Skipaútgerð ríkisins, Landsmiðjuna, Ríkisútvarpið, Gutenberg ríkisprentsmiðjuna, og Útvegsbanka Íslands. Landhelgisgæslan var efld og hafin bygging Þjóðleikhússins, hvar við nú erum saman komin.
Menntamál hafa ætíð verið flokknum hugleikin. Enda segir svo í Stefnuskrá til bráðabirgða fyrir Framsóknarflokkinn sem samþykkt var 12. janúar 1917:
„Alþýðumenntunina, sem flokkurinn telur hyrningarstein allra þjóðþrifa, vill
hann stefnumarka og styðja, einkum með aukinni kennaramenntun og eflingu
ungmennaskóla í sveitum og lýðskólum fyrir karla og konur í landsfjórðungi
hverjum. Hina æðri menntun vill flokkurinn einnig láta til sín taka og halda hinu vísindalega merki Íslands hátt á lofti …“
Vandséð er að annar flokkur hafi unnið meira átak í skólamálum en unnið var undir forystu flokksins, á tímum Jónasar, þegar héraðsskólar landsins risu hver á fætur öðrum og gáfu þúsundum landsmanna kost á góðri menntun. Og var ekki Framsóknarflokkurinn í forystu um eflingu Háskóla Íslands og stofnun Háskólans á Akureyri? Jú, svo sannarlega.
Það er því sérlega gaman að geta þess að í dag samþykkti forysta flokksins að setja á stofn sérstakan starfshóp sem falið verður að skrifa menntastefnu. Það er verðugt verkefni sem verður undir forystu Sæunnar Stefánsdóttur.
Góðir gestir
Það er hægt að deila um marga hluti, en það verður ekki deilt um hlutdeild Framsóknarflokksins í uppbyggingu Íslands á undanförnum 100 árum. Það var unnið af heiðarleik og festu undir merkjum samvinnu. Og verkefninu, að búa til betra og vænlegra samfélag, lýkur aldrei.
Og enn stöndum við frammi fyrir áskorunum. Ný ríkisstjórn að loknum kosningum í október hefur ekki enn verið mynduð, önnur staða er uppi á Alþingi en við höfum átt að venjast. Úrslit kosninganna eru vísbending um að mynduð verði ríkisstjórn með breiða skírskotun til hægri og vinstri. Milli jaðranna vinstri og hægri í stjórnmálum er miðjan, þungamiðjan. Þar erum við og þar verðum við.
Ágætu framsóknarmenn!
Í umróti innan flokksins í ár, var mér falin sú ábyrgð að setjast í sæti formanns. Fyrir það er ég þakklátur og segi það eitt að þið megið trúa því að ég mun hvergi hvika og leggja allt það fram til að gera veg flokksins okkar sem mestan til hagsbóta fyrir land og þjóð.
„Maðurinn einn er ei nema hálfur – með öðrum er hann meiri en hann sjálfur“ sagði þjóðskáldið okkar Einar Benediktsson. Til að ná árangri er ómögulegt nema hafa samhent fólk á bæði borð og ég veit að svo er. Saman munum við enn og aftur sýna og sanna að Framsóknarflokkurinn er burðarás íslenskra stjórnmála.
Saga Framsóknarflokksins staðfestir að við höfum gengið götuna til góðs. Megi svo verða næstu hundrað ár.
Til hamingju með daginn og megi þið njóta þessa afmælisfagnaðar.
Categories
Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins
17/12/2016
Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins