Categories
Greinar

Framsóknarflokkurinn í 100 ár

Deila grein

16/12/2016

Framsóknarflokkurinn í 100 ár

sigurduringi_vef_500x500Framsóknarflokkurinn á sér mikla sögu og hann endurnýjar sig stöðugt. Hann átti erindi við þjóðina fyrir hundrað árum og hann á enn erindi við þjóðina. Baráttan fyrir félagslegu jafnrétti, þar sem hverjum manni er gert kleift að njóta sín í félagi manna, er alltaf verðugt viðfangsefni. Vissan um að samvinna skili okkur betur fram veg, en hverjum fyrir sig, mun ætíð vera grunnstefið í starfi flokksins sem og einkunnarorðin sígildu: manngildi ofar auðgildi. Fyrir hálfri öld var skrifað svo um Framsóknarflokkinn í leiðara Tímans:

„Þegar lesnar eru fyrstu stefnuyfirlýsingar þeirra flokka, sem hér risu upp eftir 1916, kemur fljótt í ljós, að það er stefna Framsóknarflokksins, sem haft hefur varanlegast gildi. Alþýðuflokkurinn játaði trú sína á sósíalisma og ríkisrekstur, en er nú löngu fallinn frá því. Íhaldsflokkurinn (síðar Sjálfstæðisflokkurinn) játaði trú sína á hina óheftu samkeppni og bannfærði flest ríkisafskipti, eins og t.d. aðstoð við íbúðabyggingar. Frá þessu hefur hann nú meira eða minna vikið. Framsóknarflokkurinn játaði trú sína á þjóðlega og alhliða umbótastefnu. Sú stefna er í fullu gildi enn í dag, því að hún bindur sig ekki við augnablikskreddur, heldur fylgist með þróuninni og hefur oftast forustuna um hana.“

Samfylgd með þjóðinni í hundrað ár segir sína sögu. Kannski fyrst og fremst þá, að Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð verið áhrifamikið afl á vettvangi íslenskra þjóðmála.

Það hefur verið gæfa flokksins að honum hefur auðnast að laga sig að breyttum tímum og gert það vel, án þess nokkurn tímann að víkja frá grunngildunum. Og enn stöndum við frammi fyrir áskorunum. Ný ríkisstjórn að loknum kosningum í október hefur ekki enn verið mynduð, önnur staða er uppi á Alþingi en við höfum átt að venjast. Úrslit kosninganna eru vísbending um að mynduð verði ríkisstjórn með breiða skírskotun til hægri og vinstri. Milli jaðranna vinstri og hægri í stjórnmálum er miðjan, þungamiðjan. Þar erum við og höfum verið í heila öld.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. desember 2016.