Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, segir í yfirlýsingu í gær, að Ísland geti „verið í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur“. Meginstefið í áherslum Framsóknarmanna er að ná því fram að banna ætti dreifingu matvæla sem innihalda kampýlóbakter, salmónellu og fjölónæmar bakteríur.
Þegar hrákjötsfrumvarpið var lagt fyrir Alþingi í vetur bókaði þingflokkur Framsóknarmanna fyrirvara um málið og hefur verð unnið eftir í meðferð málsins í atvinnuveganefnd Alþingis. Fyrirvararnir snúa að því að:
- sömu gæðakröfur verði gerðar til innfluttra matvæla frá Evrópska efnahagssvæðinu og gerðar eru til íslenskrar matvælaframleiðslu.
- lýðheilsa beri ekki skaða af innflutningi vegna sýktra matvæla.
„Framsóknarflokkurinn hefur í vetur tekið sér stöðu og verið óhræddur við að benda á þá ógn sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar fjölónæmar bakteríur. Fjölmennur fundur var haldinn á Hótel Sögu þar sem okkar helsti sérfræðingur Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands, og yfirlæknir við sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, fór yfir staðreyndir málsins. Auk þess sem við fengum Lance Price, prófessor George Washington-háskóla, og stjórnanda rannsóknaseturs skólans sem rannsakar ónæmi gegn sýklalyfjum. Hann brýndi fyrir fundarmönnum að verja þyrfti þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar ættum við möguleika á að banna dreifingu á matvælum sem innihalda fjölónæmar bakteríur til að verja lýðheilsu manna og heilbrigði búfjár í landinu,“ segir Halla Signý.