Categories
Fréttir

Barnalífeyrir – mikilvægt áherslumál

Deila grein

13/12/2018

Barnalífeyrir – mikilvægt áherslumál

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, var fyrsti flutningsmaður, frumvarps til laga um breytingu á lögum um barnalífeyrir í þessu hausti. En þetta var einnig fyrsta þingmál Framsóknar á núverandi þingi og því mikilvægt áherslumál. Frumvarpið gekk út á að við bættist ný grein, svohljóðandi:
„Barnalífeyrir vegna sérstakra útgjalda. Tryggingastofnun ríkisins getur ákveðið sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.“
„Um 900 börn á Íslandi sem nú eru á aldrinum 0–18 ára hafa misst foreldri. Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef foreldri er látið eða er elli-, örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþegi. Einnig geta einstæðir foreldrar sótt um barnalífeyri í stað meðlags ef ekki er hægt að feðra barnið, það getur t.d. átt við um tæknifrjóvgun. Frá 1. janúar 2018 er barnalífeyrir 33.168 kr. á mánuði með hverju barni eða 398.016 kr. á ári,“ sagði Silja Dögg.
„Samkvæmt 60. gr. barnalaga, nr. 76/2003, má úrskurða meðlagsskyldan aðila til greiðslu framlaga vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms eða greftrunar. Önnur tilefni geta einnig orðið grundvöllur slíkra framlaga en þó aðeins ef þau eru sérstaks en ekki almenns eðlis, enda er reglubundnum meðlagsgreiðslum ætlað að standa straum af almennri framfærslu barns. Dómsmálaráðuneytið gefur út leiðbeiningar til sýslumanna um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög og ber að uppfæra þær árlega miðað við vísitölu neysluverðs. Samkvæmt upplýsingum á vef sýslumanna á þessu ári þykja fjárhæðirnar hæfilega ákveðnar sem hér segir:
72.000–95.000 kr. vegna fermingar,
19.000–24.000 kr. vegna skírnar,
72.000–106.000 kr. vegna greftrunar.
Ekki eru gefnar út leiðbeiningar vegna annarra framlaga sem hér eru talin.
Sambærilega heimild er ekki að finna til handa barnalífeyrisþegum þar sem staðan er þó sú sama á þann veg að einn framfærandi ber hitann og þungann af öllum kostnaði sem upp kemur. Flutningsmenn telja að með því sé börnum einstæðra foreldra mismunað, þ.e. eftir því hvort báðir foreldrar eða annar er á lífi. Í 2. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að nauðsynlegt sé að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað, t.d. vegna stöðu foreldra þess. Slík mismunun fer einnig gegn hugmyndum jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár Íslands,“ sagði Silja Dögg.
Í greinargerðinni kemur fram að „flutningsmenn telja að hér sé verið að mismuna börnum sem hafa misst annað foreldri sitt og rétt að sambærileg heimild verði fest í lög um almannatryggingar á þann veg að framfæranda barnalífeyrisþega verði heimilt að óska eftir viðbótarbarnalífeyri vegna sérstakra útgjalda. Í frumvarpinu er miðað við að sömu sjónarmið verði höfð til hliðsjónar við mat á viðbótarframlagi og stuðst er við í 60. gr. barnalaga. Beiðni um slíkt framlag skal beint til sýslumanns sem úrskurðar um hvort ríkinu beri að greiða viðbótarframlag vegna sérstakra aðstæðna.“
Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarmanna, sagði við afgreiðslu málsins við þriðju umferð: „Hæstv. forseti. Fyrir hönd jafnréttis- og samvinnufólksins í þingflokki [Framsóknarmanna] vil ég þakka góðar undirtektir og fagna þessum áfanga.“
Lagafrumvarpið varð að lögum með samþykkt 55 þingmanna, en 8 voru fjarstaddir.