Categories
Fréttir

„Baunabyssur“, viðskiptasaga, rjúpnaveiðitímabilið, leiðréttingin og einangrunnarsinnnar á Alþingi

Deila grein

23/10/2014

„Baunabyssur“, viðskiptasaga, rjúpnaveiðitímabilið, leiðréttingin og einangrunnarsinnnar á Alþingi

Í störfum þingsins í vikunni voru þingmenn Framsóknarflokksins áberandi.
Karl GarðarssonKarl Garðarsson ræddi „baunabyssurnar“ og sagði lögregluna hafa í „haft yfir að ráða skotvopnum í tugi ára“. Þó flestum þingmönnum og jafnvel fyrrverandi ráðherrum hafi yfirsést það. „Við lifum nefnilega ekki í neinu Disneylandi þó að stjórnarandstaðan haldi svo. Hlutverk lögreglu felst ekki bara í því að mæla umferðarhraða eða hjálpa gömlu fólki yfir götu. Við lifum ekki í heimi barnaævintýra þar sem allir eru innst inni vinir þó að einstaka sinnum slettist upp á vinskapinn.“ Karl bætti við að hans mati hafi „bullkvóti ársins hafi verið fylltur í umræðu um þessi mál á þingi í gær“.

Elsa-Lara-mynd01-vefurElsa Lára Arnardóttir fór yfir svör við skriflegri fyrirspurn sinni „varðaði skráningu viðskiptasögu einstaklinga hjá fjármálastofnunum“. Viðskiptasaga einstaklinga eru mjög persónulegar upplýsingar sem geta verið viðkvæmar, upplýsingar sem eiga ekki að fara neitt án samþykkis þess er þær varða. Fram kemur í svari fjármálaráðherra að bankar hafi „aðgang að gagnasöfnum upplýsingastofa og í því samhengi má benda á skuldastöðukerfi og vanskilaskrá Creditinfo hf“. Eins fóru öll gagnasöfn með upplýsingum um viðskiptasögu einstaklinga frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana.
„Í þessu samhengi hef ég velt fyrir mér nokkrum þáttum. Hvað varð um stöðu neytandans í þessu máli? Hvað varð um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga?
Gerum okkur grein fyrir að margir íslenskir neytendur á íslenskum heimilum fóru jafnframt illa út úr því sem gerðist hér haustið 2008, m.a. vegna ýmissa þátta innan fjármálakerfisins. Það veit Framsóknarflokkurinn og hann hefur ítrekað bent á þá staðreynd hve erfið staða heimilanna er. Þessa dagana berjast samt sem áður aðilar er samþykktu neyðarlögin, hv. þingmenn er samþykktu neyðarlögin, á móti því að heimilin fái eitthvað að gert í sínum málum og að komið verði á móts við skuldastöðu þeirra. Mér finnst það til skammar.“

Þórunn EgilsdóttirÞórunn Egilsdóttir ræddi rjúpnaveiðitímabilið, er stendur yfir í 12 daga, þar sem má veiða í þrjá daga í senn, frá föstudegi til sunnudags, fjórar helgar í röð, síðasti veiðidagur er 16. nóvember. „Það er ekki víst að veðrið verði veiðimönnum hliðhollt alla daga og því er mikilvægt að huga vel að undirbúningi. Ég hvet alla sem ætla að ganga til veiða að huga vel að þeim undirbúningi. Menn þurfa að þekkja vopnin sín, vita hvað þeir eru með í höndunum, hvernig á að fara með það og gæta varúðar í öllu. Það er mjög mikilvægt að menn kanni landslagið, þekki til staðhátta og láti vita af sér. Áður en farið er af stað er mjög mikilvægt að vera í vatnsheldum skóm með grófum sóla því að maður veit aldrei í hverju maður lendir. Ef maður villist af leið er mjög gott að hafa áttavita, kort og fjarskiptatæki til að láta vita af sér. Þannig er það með mörg verkefni sem við förum í því að það er árviss viðburður að björgunarsveitir eru ræstar út til að bjarga rjúpnaskyttum í vanda. Veiðimönnum ber skylda til að gera sitt ýtrasta til að fyrirbyggja slíkt. Því er undirbúningurinn það sem öllu máli skiptir og ég hvet okkur til að gæta vel að honum.“

Silja-Dogg-mynd01-vefSilja Dögg Gunnarsdóttir fór yfir leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum. „Á sumarþingi 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Það sem ég vil draga fram í dag er að samþykkt tillaga er í tíu liðum. Leiðréttingin sjálf er aðeins einn liður af þessum tíu.
Ég verð að segja að mér finnst dálítið einkennilegt að heyra suma hv. þingmenn sem kenna sig við jöfnuð og réttlæti tala þessa aðgerð niður, gera hana jafnvel tortryggilega. Það er eiginlega bara sorglegt. Þetta gera jafnvel sömu þingmenn og vildu fara í slíkar aðgerðir á síðasta kjörtímabili en án árangurs. Hvað hefur breyst? Eru menn heiðarlegir í málflutningi sínum eða ástunda þeir lélega pólitík? Spyr sá sem ekki veit.“
„Ég er mjög stolt af því að tilheyra þeim hópi þingmanna sem hefur barist fyrir heimilin í landinu. Rökin fyrir leiðréttingunni eru bæði sanngirnisrök og efnahagsleg rök. Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 var ráðist í stórar efnahagsaðgerðir. Skuldir fyrirtækja voru færðar að því sem greiðslugeta þeirra sagði til um og gengistryggð lán voru endurreiknuð vegna dóma Hæstaréttar. Þá hafa fjármagnseigendur verið í sterkri stöðu þar sem skuldarar bera verðbólguáhættuna vegna verðtryggingar. Þeir sátu eftir sem skulduðu verðtryggð lán á meðan holskeflan reið yfir.“

Þorsteinn SæmundssonÞorsteinn Sæmundsson vék athygli á hverjir væru hinu einu sönnu einangrunarsinnar á Alþingi. „Árið 1982 var sett á sérsveit á Keflavíkurflugvelli sem hafði yfir að ráða hríðskotavopnum. Af hverju? Vegna þess að hér er alþjóðaflugvöllur. Það kemur kannski úr óvæntri átt en flokkurinn sem ég tilheyri hefur verið sakaður um einangrunartilburði. En hvað mundi það þýða ef við stæðumst ekki kröfur sem alþjóðaflugvellir þurfa að búa yfir? Þá væri hér ekkert millilandaflug. Hverjir eru einangrunarsinnar hér?
Annað er það að hér hafa hreiðrað um sig glæpasamtök sem hafa alþjóðlegar tengingar. Ætlum við að senda lögreglumennina okkar, þetta fólk sem fórnar fjölskyldulífi sínu og öðru, berhenta á vettvang? Er það svo? Höfum við meiri áhyggjur í þessum sal af góðkunningjum lögreglunnar en lögreglunni sjálfri? Á sú stétt sem stóð vörð um þessa stofnun hér þegar hart var í ári það skilið að verið sé að sá fræjum tortryggni í hennar garð í þessu húsi? Ég held ekki, þingmenn góðir.“

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.