Categories
Fréttir

Birgitta á að fagna fjármunum í ljósleiðarann

Deila grein

26/02/2016

Birgitta á að fagna fjármunum í ljósleiðarann

Páll„Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli. Þetta er það mikið byggðamál að það er aldrei of mikið rætt í þessum sölum. Ég tek alveg undir áhyggjur sveitarstjórnarmanna á Austurlandi, en þetta er nú einu sinni þannig að þegar kemur að framkvæmdum og það loksins — og ég hefði haldið að hv. þingmaður fagnaði því að ríkisstjórnin væri loksins að setja fjármuni og hefja framkvæmdir á þessu mikilvæga máli frekar en að velta sér upp úr því hvernig hlutirnir eru gerðir.
Ég er nærri viss um að það er alveg sama hver tillagan verður, og þess skal getið að starfshópurinn er ekki búinn að skila tillögum til ráðherra, en í dag er þetta unnið þannig að fjarskiptafélögin sækja til fjarskiptasjóðs um styrki til þess að fjarskiptatengja staði á markaðsbrestssvæðum.
Þetta árið munum við líklegast leggja til að sveitarfélög sæki um styrki til þess að leggja á sínum svæðum sem þýðir með öðrum orðum að við munum væntanlega leggja til að þessir takmörkuðu fjármunir verði veittir þannig að þeim verði dreift á þrjú, fjögur svæði, á norðvestur-, norðaustur- og suðursvæði, í hlutfalli við það hversu margir ótengdir staðir eru á hverjum stað. Við reynum að tryggja að þetta dreifist um allt landið, mest á þá staði sem eru verst staddir, en við getum svo lengi deilt um það hvar við eigum að byrja verkið. Mér finnst mest um vert að við erum að byrja þetta mikilvæga verk.”
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 24. febrúar 2016.