Categories
Fréttir

„Bjartari tímar framundan í Reykjanesbæ“

Deila grein

05/12/2018

„Bjartari tímar framundan í Reykjanesbæ“

Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, fer yfir helstu atriði í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2019 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2020-2022, í yfirlýsingu í gær. Sveitarfélagið mun ná undir lögboðið 150% skuldaviðmið fyrr en upphafleg aðlögunaráætlun gerði ráð fyrir. Aðlögunaráætlun fyrir árin 2017 til 2022 gerði ráð fyrir að skuldaviðmiðið næði 150% árið 2022.
„Aukning er til nýframkvæmda í skólum og undirbúningur hafinn að byggingu nýs hjúkrunarheimilis. Álögur á íbúa eru lækkaðar eins og kostur er. Horfið hefur verið frá hækkuðu útsvari og nú greiða íbúar Reykjanesbæjar sömu prósentu í útsvar og íbúar flestra annara sveitarfélaga á Íslandi. Þá er ráðgerð lækkun á fasteignaskatti í gjaldskrá úr 0,46% í 0,36% til þess að mæta hækkuðu fasteignamati,“ segir Jóhann Friðrik.
Aðhald í rekstri, hagstæð ytri skilyrði, auknar tekjur og breyttar reglur um útreikning skuldaviðmiðs eru meðal þess sem valdi því að hraðar gangi að nálgast skuldaviðmiðið, samt hefur náðst að forgangsraða til velferðar-og fræðslumála í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2019.
„Bjartari tímar framundan í Reykjanesbæ,“ segir Jóhann Friðrik Friðriksson.