Categories
Fréttir

Hvað getur unnist af klasastarfi?

Deila grein

04/12/2018

Hvað getur unnist af klasastarfi?

Willum Þór Þórsson, alþingismaður, er flutningsmaður að tillögu til þingsályktunar á Alþingi um mótun klasastefnu.
Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan feli í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir. Stefnan verði unnin í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs sem er í gildi 2017–2019 þar sem markmið nýrrar klasastefnu verði að ráðstafa fjármunum til atvinnuuppbyggingar og byggðaþróunar á markvissari hátt en hingað til, að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs, efla nýsköpun, efla samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina og þjóðarinnar og efla hagsæld. Enn fremur er lagt til að ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps í lok maí 2019.
„Ég tel slíka stefnumótun getað skilað miklum ávinningi fyrir atvinnulífið, nýsköpun og ekki síst þegar við skoðum uppbyggingu atvinnu í tengslum við nýtingu auðlinda um landið gervallt og markvissari nýtingu fjölmargra sjóða sem ætlað er að efla rannsóknir og nýsköpun, hvort sem um ræðir vísindamenn innan menntageirans eða verkefnadrifna sjóði. Við getum kallað það innlegg í markvissari byggðastefnu,“ sagði Willum Þór.

Fjárfesting í þekkingarsköpun leiði til betri skilnings á samfélagslegum áskorunum
„Samfélög í dag standa frammi fyrir flóknum, hnattrænum áskorunum á sviði t.d. umhverfis, loftslags, heilsu, orku, fæðu, fólksflutninga og öryggis. Mikilvægt er að fjárfesting í þekkingarsköpun leiði til betri skilnings á samfélagslegum áskorunum og vísi veginn í átt til árangursríkra lausna. Slíkar lausnir krefjast oft umfangsmikils samstarfs þvert á fræðigreinar og á milli háskóla, stofnana og fyrirtækja. Til að ný þekking nýtist samfélaginu verður hún að hafa áhrif til breytinga, t.d. í stefnu stjórnvalda, með lagasetningu, með breyttu verklagi fyrirtækja og stofnana eða með breyttri hegðun fólks. Í samfélagslegum áskorunum felst töluverð óvissa því erfitt er að segja fyrir um áhrif þeirra og hvernig best sé að bregðast við. Skýr framtíðarsýn og markviss fjárfesting í þekkingu eykur möguleikana jákvæðum árangri og farsælli aðlögun að breyttum aðstæðum,“ sagði Willum Þór og vitnaði í ritið Stefna- og aðgerðaráætlun, Vísinda- og tækniráðs 2017-2019.
„Tillagan sem við ræðum, um opinbera klasastefnu, styður vel þær áherslur sem koma fram í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs um vel ígrundaða stefnumótun og mikilvægi slíkrar stefnumörkunar þar sem upplýsingavinnsla og hagtölugerð er forsenda vandaðrar stefnumótunar og til aukins skilnings á rannsóknar- og nýsköpunarkerfinu, auknum sveigjanleika þess til að fylgja árangri eftir og markvissari ákvörðunartöku stjórnvalda, stofnana eins og háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja,“ sagði Willum Þór.
Hvað getur unnist af klasastarfi?
„Við höfum þrisvar sinnum haldið risastórar alþjóðlegar ráðstefnur sem hafa farið stækkandi og sem dæmi er alþjóðlega jarðvarmaráðstefnan sem haldin var í Hörpu 2016 um fjölnýtingu jarðvarmans. Hún er mjög gott dæmi um hvað getur sprottið á slíkum vettvangi og í samvinnu fyrirtækja í milli og stofnana og fræðasamfélags. Á ráðstefnunni voru fyrirlesarar á borð við Michael Porter. Þar voru 1.000 gestir frá 40 þjóðum að deila þekkingunni. Með ráðstefnunni hefur Íslandi eða íslenska jarðvarmaklasanum tekist að byggja Ísland upp sem helsta umræðuvettvang jarðvarma og endurnýjanlegrar orku á heimsvísu. Okkur tókst síðan í kjölfarið að fá alheimsráðstefnuna, sem er haldin á fimm ára fresti, í samkeppni við lönd eins og Chile, Þýskaland, Holland, Kenýa, Filippseyjar og Bandaríkin. Sú ráðstefna fer fram hér 2020. Ef hið opinbera markar ekki stefnu og tekur ekki þátt í verkefnum eins og því förum við á mis við tækifæri og hætta er á, ef slíkur stuðningur og skuldbinding er ekki fyrir hendi, að slík verkefni fjari út. Þetta er dæmi um það sem getur unnist í klasavinnu þar sem þekking kemur saman úr mörgum áttum, úr fræðasamfélagi, frá stofnunum, hinu opinbera, úr atvinnulífinu,“ sagði Willum Þór Þórsson.