Categories
Fréttir

Umhverfisvernd og dýravelferð við opinber innkaup á matvöru

Deila grein

03/12/2018

Umhverfisvernd og dýravelferð við opinber innkaup á matvöru

Þórunn Egilsdóttir, formaður Þingflokks Framsóknarmanna, mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um vistvæn opinber innkaup á matvöru á dögunum á Alþingi. Fram kom í inngangsorðum Þórunnar „að miklu varðar að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda, notkun skaðlegra hormóna og eiturefna, ofnotkun sýklalyfja sem leiðir af sér fjölónæmar bakteríur og önnur skaðleg áhrif á umhverfið og velferð dýra við framleiðslu og flutning matvöru. Ríki og sveitarfélög geta haft veruleg áhrif þar á með því að hafa umhverfisvernd og dýravelferð að leiðarljósi við innkaup á matvöru. Til dæmis má ætla að hátt í 150.000 manns – nemendur, starfsfólk hjá hinu opinbera, vistmenn á dvalar- og öldrunarheimilum og fleiri – eigi reglulega kost á að borða í mötuneytum á vegum hins opinbera. Ef miðað er við að tveir þriðju þeirra neyti þess kosts er um 100.000 manns að ræða,“ sagði Þórunn.
Þórunn lagði áherslu á mikilvægi þess „að ávallt verði tekið tillit til umhverfisverndar og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru.“ Ríki og sveitarfélög geta stuðlað að vistvænni matvælaframleiðslu enda viðurkennt að nýta megi opinber innkaup til að vinna að umhverfisvernd og velferð dýra.
„Við búum hér yfir gríðarlegum gæðum“
Markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2014 kallar á breiðan stuðning við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og atvinnugreinar í viðleitni þeirra til að setja sér markmið í loftslagsmálum. Allar stærri opinberar áætlanir þarf nú að meta út frá loftslagsmarkmiðum.
Skýrsla um kolefnisspor garðyrkjunnar, sem unnin var fyrir samband garðyrkjubænda, leiðir í ljós að íslensk garðyrkja hefur mest forskot þegar afurð er flutt inn með flugi. Það að flytja salat til landsins kostar rúmlega þrefalt meira kolefni en allt ferlið á Íslandi og er hlutfall íslenska kolefnissporsins um 26% af því innflutta.
„Allt skiptir þetta máli í stóra samhenginu þegar talið berst að umhverfismálum. Til gamans langar mig til að benda á að Danir, sem eru framarlega í þessum málum, eru svo hrifnir af íslenska grænmetinu að þeir vilja það helst af því að ræktunaraðferðirnar hér á landi og hreinleiki vatnsins er langt umfram það sem þekkist annars staðar. Við búum hér yfir gríðarlegum gæðum,“ sagði Þórunn.

Neytendastefna sauðfjárbænda
Í neytendastefnu sauðfjárbænda til ársins 2027 er gert ráð fyrir að búið verði að kolefnisjafna íslenska sauðfjárrækt fyrir þann tíma og að allar íslenskar sauðfjárafurðir verði vottaðar með lágmarksumhverfisspori fyrir 2027. Íslenskt sauðfé er nú þegar alið án hormóna og vaxtarhvetjandi lyfja og erfðabreytt fóður hefur verið bannað. Notkun á sýklalyfjum er með því minnsta sem þekkist í heiminum.
Ríkið er drifkraftur nýsköpunar og til sjálfbærrar þróunar
„Opinber innkaup ríkisins eru umtalsverður hluti af hagkerfinu og því skiptir máli hvernig þeim er hagað. Með hlutdeild sinni á matvælamarkaði getur ríkið haft áhrif á þróun á markaði og verið drifkraftur nýsköpunar og lagt mikið af mörkum til sjálfbærrar þróunar. Metnaður hins opinbera á að felast í því að gefa börnum, öldruðum og öðrum þeim er hið opinbera matreiðir fyrir, lystuga og heilnæma máltíð,“ sagði Þórunn.
„Íslenskur landbúnaður og íslensk landbúnaðarframleiðsla stendur mjög framarlega og það hefur verið mikið kappsmál hjá mínum flokki, Framsóknarflokknum, okkur Framsóknarmönnum, að fylgja þessum málum eftir. Ég hef trú á því að við stöndum með pálmann í höndunum ef við byggjum á þessum grunni,“ sagði Þórunn.
Í ríkisstjórnarsáttmálnum semgir að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum og tryggja eigi áframhaldandi samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðamörkuðum. Einnig kemur fram að nýta beri tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi, þróa lífhagkerfið enn frekar og stuðla að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurða og byggðafestu.
„Það er gríðarlega mikið og stórt mál í öllum byggðamálum, að við séum með öflugt atvinnulíf um allt land og við séum að nýta auðlindina okkar, landið, til að framleiða heilnæm matvæli,“ sagði Þórunn Egilsdóttir.