Categories
Greinar

Tryggjum jöfnuð gagnvart fæðingarþjónustu

Deila grein

03/12/2018

Tryggjum jöfnuð gagnvart fæðingarþjónustu

Fæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Árið 2003 voru þeir 14 en eru nú 8. Hátt á þriðja hundrað börn fæðast árlega sem eiga foreldra sem búa yfir hundrað kílómetra frá fæðingarþjónustu. Félags- og jafnfréttisráðherra hyggst í samvinnu við heilbrigðisráðherra stofna starfshóp til að fara heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu og gera nauðsynlegar úrbætur.

Nýtt sjúkrahótel bætir þjónustuna
Þrátt fyrir að fæðingarstöðum fækkað, þá hefur fátt komið í staðinn fyrir það fólk sem býr fjarri fæðingarþjónustu. Sjúkratryggingar Íslands greiða ferðakostnað fyrir móður, en það er allt og sumt. Mikill kostnaður getur fylgt því að greiða fyrir gistingu nærri fæðingarþjónustu sem og ferðakostnað fyrir aðra fjölskyldumeðlimi og uppihald. Markmið nýs sjúkrahótels við Landspítala, sem opnar á næstunni, er m.a. að útvega gistingu fyrir fólk af landsbyggðinni sem er að sækja þjónustu sem ekki er veitt í heimabyggð og að veita konum af landsbyggðinni gistingu nálægt fæðingardeild meðan beðið er fæðingar sérstaklega ef að er um áhættufæðingar að ræða. Góð aðstaða verður fyrir fjölskyldufólk á sjúkrahótelinu.

Nauðsynlegt að breyta lögum um fæðingarorlof
Vegna þessa augljósa ójafnræðis sem fólk býr við varðandi aðgengi að fæðingarþjónustu lagði undirrituð ítrekað fram frumvarp, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, með breytingu á lögum um fæðingarorlof. Með frumvarpinu var lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Sú breyting yrði til þess að öllum börnum yrði tryggður jafn réttur til að njóta samvista við foreldra sína fyrstu mánuði lífsins. Slík breyting yrði einnig í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013. Velferðarnefnd Alþingis tókst ekki að afgreiða frumvarpið á vordögum en því ber að fagna að félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra ætli að fara ítarlega yfir stöðu þessa hóps og leggja fram tillögur að úrbótum.

Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á eyjafrettir.is 3. desember 2018.