Categories
Greinar

Samvinna í lykilhlutverki

Deila grein

03/12/2018

Samvinna í lykilhlutverki

Á 100 ára afmæli fullveldisins finnur maður fyrir nálægð sögunnar í hversdeginum. Lítur yfir farinn veg og sér hvernig hreyfingar samfélagsins dag frá degi verða efniviður í Íslandssöguna. Finnur fyrir ákveðnum þunga á öxlunum en á sama tíma stolti yfir því að fá að taka þátt í sögu þjóðarinnar sem stjórnmálamaður og formaður þess flokks sem hefur í sinni 102 ára sögu haft gríðarleg áhrif á framþróun Íslands. Framsókn á stóran þátt í uppbyggingu atvinnutækifæra á tíma fullveldis Íslands og þá ekki síður í menntamálum og heilbrigðiskerfinu.Okkur hefur farnast velÞað verður víst ekki sagt um okkur Íslendinga að við séum fjölmenn þjóð. Þeim mun mikilvægari verður hver og einn og framlag hans til samfélagsins og þróunar þess. Kannski er það hluti af ástæðu þess hvað okkur hefur auðnast að hreyfa okkur hratt frá fábrotnu samfélagi til þess fjölbreytta og öfluga samfélags sem við byggjum í dag. Okkur Íslendingum hefur farnast vel sem fullvalda þjóð.

Samfélag okkar er ekki fullkomið frekar en önnur samfélög. Við erum þó lánsöm að búa við mikinn jöfnuð og líklega mesta samfélagslega hreyfanleika þannig að fólk getur unnið sig upp samfélagsstigann með hjálp öflugs menntakerfis og námslánakerfis sem sitjandi ríkisstjórn ætlar að breyta í átt að meiri stuðningi og jöfnuði en við höfum þekkt hér á landi áður. Menntun er lykilatriði í því að gefa fólki byr undir vængi og þá um leið samfélaginu. Menntun er grundvöllur allra framfara og við setjum ávallt manngildi ofar auðgildi.

Vélin sem knýr samfélagið

Atvinnulífið er vélin sem knýr samfélagið áfram. Framsókn hefur ávallt verið umhugað um að byggja upp sterkt og fjölbreytt atvinnulíf um allt land. Án atvinnu veikjast bæði samfélög og einstaklingar. Með atvinnu kemur styrkur og áræðni sem skilar fólki og byggðarlögum auknum lífsgæðum og samfélaginu öllu tekjum til að halda utan um þá sem minna mega sín. Stundum þarf að taka umdeildar ákvarðanir til að snúa vörn í sókn. Slíkt verður ávallt að gera með manngildið í öndvegi.

Frjálslyndi og farsæld

Síðasta öld er af mörgum kölluð öld öfganna. Á þeirri öld lék Framsókn og samvinnuhugsjónin oft lykilhlutverk í að leiða saman ólík öfl við stjórn landsins. Eins og segir í grunnstefnu flokksins aðhyllumst við frjálslynda hugmyndafræði og teljum farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika. Líklega hefur sjaldan verið nauðsynlegra að rödd og hugmyndafræði Framsóknar heyrist en einmitt nú þegar pólar stjórnmálanna verða ýktari. Nú er mikilvægt að hlusta vel á ólíkar raddir og leiða mál til lykta með samvinnu.

Sátt manns og náttúru

Framtíðin brosir við okkur. Framfarir eru stöðugar, bæði hvað varðar efnahag okkar og lýðræðislegt samfélag. Verkefni okkar stjórnmálamannanna er að þróa áfram samfélagið með því að skapa aðstæður og umhverfi sem gefur öllum tækifæri til að blómstra. Hvert skref sem tekið er verður að hlúa að þeim eiginleikum sem mikilvægastir eru fyrir manneskju og samfélag. Síðustu 100 ár hafa sýnt okkur að Íslendingum eru allir vegir færir. Nú bíður okkar allra verkefnið að efla og styrkja samfélagið í sátt manns og náttúru. Eins og áður er samvinnan þar í lykilhlutverki.

Ég óska Íslendingum öllum til hamingju á hundrað ára afmæli fullveldis Íslands.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2018.