Categories
Fréttir

„Blómlegt fram undan í barnamenningu“

Deila grein

27/05/2024

„Blómlegt fram undan í barnamenningu“

Tilkynnt hefur verið um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2024. Sjóðurinn styrkir 41 metnaðarfullt verkefni og er heildarupphæð úthlutunarinnar 102,4 milljónir króna. Alls bárust 117 umsóknir og var sótt um 383 milljónir króna. Úthlutun var tilkynnt við athöfn í Safnahúsinu á degi barnsins, sunnudaginn 26. maí 2024.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra og Guðný Hilmarsdóttir formaður stjórnar Barnamenningarsjóðs ávörpuðu gesti og greindu frá úthlutun. Kammersveit skipuð ungum listamönnum, þeim Sigrúnu Mörtu Arnaldsdóttur, Sólu Björnsdóttur og Sveindísi Eir Steinunnardóttur, lék tvö lög við góðar undirtektir.

„Það er blómlegt fram undan í barnamenningu og gleður mig ósegjanlega mikið að sjá hversu margar umsóknir bárust. Það segir okkur að efling ungra listhuga er eftirsóknarvert viðfangsefni hjá listafólkinu okkar sem lýsir metnaði fyrir skapandi framtíð landsins og það mun skila sér margfalt til baka til okkar allra. Því langar mig að þakka öllum þeim er sóttu um, fyrir hugmyndirnar og kraftinn því það er ekki alltaf auðsótt að koma hugmyndum í framkvæmd og það krefst eldmóðs sem er svo sannarlega til staðar hér,“ sagði Lilja Dögg.

Hæsta styrkinn 11,5 milljónir, fær Reykjavíkurborg í samstarfi við Akureyrar- og Ísafjarðarbæ fyrir Leikskólaverkefnið sem byggir á samstarfi leik- og tónlistarskóla í öllum þremur sveitarfélögunum. Nemendur í tónlistarskóla vinna með elstu börnum leikskóla og lýkur verkefninu með sameiginlegum lokatónleikum. Næsthæsta styrkinn, 6 milljónir, fær Vestfjarðarstofa fyrir barnamenningahátíð Vestfjarða, Púkann 2025, en hátíðin fer fram vítt og breitt um Vestfjarðakjálkann. Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknirnar og menningarmálaráðherra samþykkti tillögu stjórnar sjóðsins um úthlutun.

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins með ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Sjóðurinn var festur í sessi 23. maí 2023 með Þingsályktun um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024–2028.

Heimild: stjr.is