Categories
Fréttir

Börn búi við öryggi án ofbeldis og ógnar

Deila grein

10/01/2024

Börn búi við öryggi án ofbeldis og ógnar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldi.

Markmið tillögunnar er að ganga enn frekar í miðlun upplýsinga. Að „núverandi kerfi verði endurskoðað með það fyrir augum að einfalda barnaverndaryfirvöldum, félagsmálayfirvöldum og heilbrigðisyfirvöldum sem og menntamálayfirvöldum að miðla upplýsingum sín á milli og til lögreglu, ávallt með það að leiðarljósi að tryggja persónuverndarsjónarmið hvað miðlunina varðar“.

Tillögugreinin hljóðar svo:

    „Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í desember 2023.

Tilkynningar þolenda til lögreglu um heimilisofbeldi koma síður fram enda gerandinn oft nákominn. Eins á það við í smærri samfélögum þar sem allir þekkja alla og verið þungbært fyrir þolenda að tilkynna um heimilisofbeldi. Mikilvægt er að stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð.

„Þótt verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld þarf samstarfið einnig að verða formfast í hina áttina, þ.e. með tilkynningum félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu og með samstarfi þeirra á milli að frumkvæði annarra yfirvalda. Til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi þarf skýrari lagaheimildir til upplýsingamiðlunar,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Það er breið pólitísk samstaða um málið og við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að við grípum styrkum höndum utan um þennan viðkvæma hóp og brjótum upp ákveðinn vítahring sem myndast hefur í þessum málum. Við höfum verið að stíga stór og stöndug skref í áttina að því að bæta verkferla hjá lögreglu og þá hefur einnig verið gripið til mikilvægra réttarúrbóta fyrir þolendur ofbeldis. Baráttunni er þó ekki lokið og við erum enn að sjá allt of háar tölur um tíðni heimilisofbeldis,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Ég bind miklar vonir við að við getum tryggt þessu máli framgang og auðveldað þá upplýsingamiðlun sem hér um ræðir því að við verðum að skapa þær forsendur í okkar samfélagi fyrir fjölskyldur og fyrir börnin okkar að þau búi við öryggi. Þau eiga að njóta þeirra grundvallarréttinda að búa við öryggi án ofbeldis og ógnar á þeim stað sem á að vera friðhelgur griðastaður. Við eigum öll þann skilyrðislausa rétt skilið,“ sagði Hafdís Hrönn.