Categories
Fréttir

„Börn og samgöngur“

Deila grein

13/05/2020

„Börn og samgöngur“

Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, gerði í ræðu í störfum þingsins á Alþingi í gær, að umtalsefni afhendingu umboðsmanns barna og hóps ungmenna ríkisstjórninni niðurstöðu barnaþings sem haldið var í nóvember sl.
„Barnaþing er nú orðið fastur liður í tilverunni. Til þess var stofnað með lögum og skal það haldið annað hvert ár með þátttöku barna og ungmenna hvaðanæva að af landinu. Áherslur stjórnvalda á aukin áhrif barna og ungmenna koma víða fram og vil ég í dag draga athygli ykkar að merkilegu málþingi sem var einnig haldið í nóvember.“
„Það þing hafði yfirskriftina Börn og samgöngur. Það eru tíðindi því að samkoma af þessu tagi hefur ekki verið haldin áður. Þrátt fyrir að börn séu stórnotendur samgöngukerfisins er hvergi minnst á þau í gildandi samgönguáætlun og aðeins tæpt á ungmennum. Börn ferðast með bílum, börn fljúga, börn hjóla, börn ganga, börn sigla og börn ferðast með strætó. Þeirra sjónarmið þurfa að koma fram líkt og annarra. Þess vegna var eitt af umbótaverkefnum samgönguráðs að koma sérstökum kafla um börn og samgöngur inn í samgönguáætlun.“
„Hagsmunir barna í umferðinni eru á margan hátt ólíkir hagsmunum þeirra sem eldri eru sem og hegðun þeirra í umferðinni. Okkur veitir ekki af liðsinni barna, að fá skoðanir þeirra fram og varpa sýn á hugmyndir þeirra sem þekkja kerfið í dag og eru líka framtíðarnotendur.
Nú hefur samráð þess vegna bæst inn í verkferla samgönguráðs við undirbúning samgönguáætlunar. Samtal við fólk á öllum aldri um allt land er mikilvægt til að samræma sjónarmið.
Hæstv. forseti. Í fyrsta fjárfestingarpakka ríkisstjórnarinnar verða til 1.000 störf næstu árin vegna framkvæmda við samgöngumannvirki og það verður svo til þess að eignamyndun ríkisins eykst. Og athugið að þetta er allt fyrir utan gildandi samgönguáætlun. Við erum stórhuga og í miklum framkvæmdum. Það er á okkar ábyrgð að hafa ungmenni með í ráðum. Þau þurfa að lifa við ákvarðanir okkar inn í framtíðina,“ sagði Þórunn að lokum.