Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði í umræðum um störf þingsins í gær að yfirfara yrði mál embættis rískislögreglustjóra „frá öllum hliðum með það að markmiði að skapa traust innan lögreglunnar og umdæma hennar. Umdæmi lögreglunnar eru níu á landsvísu. Umdæmin eru fjölbreytt hvað stærð og íbúafjölda varðar. Sem dæmi má nefna að umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru 23.300 km² með liðlega 30.000 íbúa.“
„Starf lögreglumanna úti á landi er töluvert frábrugðið því starfi sem lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu sinna. Að þeirra sögn skortir verulega á skilning ríkislögreglustjóra á þeim fjölbreytileika sem starfið hefur upp á að bjóða hverju sinni. Eins og einn ágætur lögreglumaður sagði, með leyfi forseta: Bossinn horfir bara á tölfræði.“
„Nú legg ég traust mitt á dómsmálaráðherra. Endurskoðunar er þörf,“sagði Þórarinn Ingi.
Ræða Þórarins Inga Péturssonar á Alþingi 17. september 2019:
„Virðulegi forseti. Undanfarna daga og vikur hefur embætti ríkislögreglustjóra mikið verið í umræðunni og sitt sýnist hverjum. Það er mikilvægt að skoða málið frá öllum hliðum með það að markmiði að skapa traust innan lögreglunnar og umdæma hennar. Umdæmi lögreglunnar eru níu á landsvísu. Umdæmin eru fjölbreytt hvað stærð og íbúafjölda varðar. Sem dæmi má nefna að umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru 23.300 km² með liðlega 30.000 íbúa. Eðlilega starfa flestir lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir íbúar landsins búa en á móti kemur að landsvæðið er ekki stórt miðað við stærð landsbyggðarumdæmanna. Starf lögreglumanna úti á landi er töluvert frábrugðið því starfi sem lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu sinna. Að þeirra sögn skortir verulega á skilning ríkislögreglustjóra á þeim fjölbreytileika sem starfið hefur upp á að bjóða hverju sinni. Eins og einn ágætur lögreglumaður sagði, með leyfi forseta: Bossinn horfir bara á tölfræði.
Notkun ökutækja er einn af lykilþáttum í framkvæmd löggæslu úti á landi. Þegar vel er að gáð er óhætt að segja að þau mál sé vert að endurskoða. Því hefur dómsmálaráðuneytið ákveðið að leggja niður bílamiðstöð ríkislögreglustjóra í núverandi mynd. Skipaður hefur verið starfshópur sem á að skoða framtíðarmöguleika í bílamálum lögregluembættanna um allt land. Ríkislögreglustjóri hefur rekið bílamiðstöð lögreglunnar og borið ábyrgð á rekstri, viðhaldi og endurnýjun allra ökutækja lögreglu ásamt öllum búnaði en lögregluembættin hafa leigt bílana af ríkislögreglustjóra.
Virðulegi forseti. Nú legg ég traust mitt á dómsmálaráðherra. Endurskoðunar er þörf.“