Ágætu framsóknarmenn!
Flokksþingi okkar er lokið, kosningabaráttan hafin. Ég vil byrja á því að þakka ykkur öllum, hverju og einu fyrir glæsilegt þing. Hundrað ára flokkur hefur burði til þess að skera úr málum með lýðræðislegum hætti. Það er merki um styrkleika, ekki veikleika. Ég heiti ykkur því að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að gegna hlutverki formanns eins vel og mér er unnt.
Samvinna og samtal hefur dugað okkur vel, enda flokkurinn meðal annars grundvallaður á þessu tvennu. Verkefni okkar núna er að taka höndum saman, mynda órofa heild með hagsmuni Framsóknarflokksins og þjóðarinnar í fyrirrúmi. Kjörtímabilið hefur verið viðburðarríkt. Mörg gríðarstór verkefni eru að baki og nauðsynlegt að halda áfram öllum til heilla. Við leystum þau stóru mál sem við sögðumst ætla að leysa. Hjól samfélagsins snúast á meiri og öruggari hraða vegna þess sem Framsóknarflokkurinn setti í öndvegi. Allir efnahagslegir mælikvarðar eru á leið í rétta átt. Við eigum að vera stolt af því hverju við höfum áorkað og óhrædd að takast á við ný verkefni. Það sem er liðið er liðið, við vinnum ekki sama leikinn tvisvar.
Jafnræði er öllum þjóðum félagsleg nauðsyn. Fyrir því eru augljós rök. Ekki síst er þetta augljóst hér á landi þar sem samfélagið er fámennt, kunningsskapur, skyldleiki og önnur tengsl eru mikil meðal þjóðarinnar. Hér eigum við að vera í fremstu röð hvað jöfnuð snertir. Eitt af þeim stóru málum sem við hyggjumst berjast fyrir, er að auka mátt millistéttarinnar. Það hyggjumst við meðal annars gera með því að lækka lægsta skattþrepið umtalsvert. Slík aðgerð gæti tekið til um 80% launamanna og myndi létta á skattgreiðslum stórs hóps, en þyngja að nokkru leyti byrðar þeirra sem hæstu launin hafa. Við ætlum ekki að fara í neinar kollsteypur heldur halda stefnu á þeirri farsælu leið sem við höfum verið á, allt kjörtímabilið.
Um leið og ég þakka ykkur enn og aftur fyrir það traust sem þið sýnduð mér á flokksþinginu, vil ég hvetja alla til að taka höndum saman og sýna úr hverju Framsóknarflokkurinn er gerður. Hundrað ár eru liðin, hundrað ár eru framundan.
Sigurður Ingi Jóhannsson
Categories
Bréf frá formanni
13/10/2016
Bréf frá formanni