Categories
Fréttir

Almenn skoðun að vaxtastig þyki of hátt

Deila grein

14/10/2016

Almenn skoðun að vaxtastig þyki of hátt

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Það er ekki annað hægt en að nota tækifærið og taka þátt í störfunum hér fjórða sinnið í þessari viku. Í þessum ræðustól hef ég, eins og margir aðrir hv. þingmenn, oft rætt vexti og ég ætla að nota tækifærið undir þessum lið og gera það.
Við ræðum þessi mál gjarnan í tengslum við vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Ég held að það megi fullyrða að það sé almenn skoðun að vaxtastig þyki of hátt. Hér hefur ríkt stöðugleiki um langa hríð og verðbólga hefur lengi vel verið innan marka verðbólgumarkmiða Seðlabankans, en nú brá svo við að Seðlabankinn lækkaði vexti við þarsíðustu ákvörðun og töldu þá margir að peningastefnunefndin væri að hefja lækkunarferli. En nú síðast, fyrir tveim dögum, hélt peningastefnunefndin stýrivöxtum óbreyttum í 5,25%. Ástæðan er að staðan í efnahagsmálum frá því í ágúst er óbreytt og því er stýrivöxtum haldið óbreyttum.
Það er merkilegt ef viðbrögðin eru engin við stýrivaxtalækkun þar á undan. Þess vegna, og kannski einmitt þess vegna að viðbrögðin eru ekki aukin þensla, ætti að vera óhætt að halda þessu lækkunarferli áfram og á sama tíma er það mögulega vísbending um að vaxtastigið sé raunverulega of hátt sem og raunvextir við þessar aðstæður. Einhverjir vilja tengja þessa ákvörðun við skekkju í útreikningum Hagstofunnar, en það á auðvitað ekki að breyta væntingum og horfum, sem skipta auðvitað mestu máli við mat á því hvert framhaldið verður. Fram undan er stórt skref í losun hafta og fjárlagavinna í kjölfar kosninga. Þar mun reyna verulega á að skila ríkissjóði með afgangi fjórða árið í röð. Það mun skipta sköpum að fjármálastefnan styðji við peningamálastefnu, hemja þenslu og verja verðstöðugleika.
Aðeins með þeim hætti verður hægt að halda vaxtalækkunarferli áfram og þannig getum við lækkað útgjöld heimila og fyrirtækja. Það yrði raunveruleg kjarabót.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 7. október 2016.