Categories
Fréttir

Húsnæðisbætur fyrir framhalsskólanemendur

Deila grein

14/10/2016

Húsnæðisbætur fyrir framhalsskólanemendur

elsa-lara-mynd01-vefur„Hæst. forseti. Ég vil byrja á að segja að það er mikilvægt að samningar um þinglok séu að takast. Það er mikilvægt upp á ásýnd þingsins og hv. þingmenn komist út í kjördæmin og eigi samtal við þjóðina. Hins vegar verðum við að horfa á verkefnin sem eftir eru og mikilvægi þess að þau verði kláruð. Þar má m.a. nefna frumvarp um almannatryggingar með breytingartillögum sem fela það í sér að lágmarksbætur verða hækkaðar í samræmi við lágmarkslaun. Auk þess verð ég að minnast á málið um breytingu á útreikningi vísitölu. Hér er um stórt hagsmunamál að ræða fyrir mörg heimili landsins.
En það var annað sem ég ætlaði að ræða í dag. Mig langar að vekja athygli á lögum um húsnæðisbætur, lög sem samþykkt voru hér á þingi í vor og eiga að taka gildi þann 1. janúar nk. Stór og mikilvægur þáttur þeirra laga er sá að nú verður sveitarfélögum skylt að veita húsnæðisbætur til þeirra foreldra eða forráðamanna sem eiga börn á aldrinum 15–17 ára, börn sem þurfa að sækja framhaldsnám út fyrir sína heimabyggð og búa á námsgörðum eða heimavist. Sá stuðningur skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forráðamanna og getur numið allt að 75% af húsnæðiskostnaði vegna leigunnar. Um er að ræða breytingu sem gerð var á málinu í þinglegri meðferð. Mikill stuðningar var við þessa breytingu innan velferðarnefndar. Nefndarmönnum fannst mikilvægt að koma til móts við aukinn kostnað heimila sem þurfa að senda börn sín í framhaldsnám fjarri heimabyggð. Í umræðunni hefur ekki farið mikið fyrir þessum rétti foreldra og forráðamanna og því er tilvalið að nýta tækifærið hér að vekja athygli á þessum lögum.
Að lokum vil ég segja þetta: Ég vil þakka öllum hv. þingmönnum fyrir samstarfið á undanförnum árum. Þetta hefur verið lærdómsríkur tími. Þeim hv. þingmönnum sem ákveðið hafa að snúa sér að öðrum störfum óska ég velgengni. Okkur hinum sem viljum halda áfram óska ég jafnframt velgengni og að við eigum málefnalega baráttu.“
Elsa Lára Arnardóttir 7. október 2016.