Categories
Fréttir

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Deila grein

10/05/2024

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Kæru flokksfélagar!

Í upphafi vil ég byrja á að þakka ykkur innilega fyrir hönd þingflokksins fyrir einstaklega flott og kraftmikið Flokksþing Framsóknar í síðasta mánuði. Að okkar mati tókst þingið vel og mun nú strax eftir helgi verða hægt að nálgast flokksþingsályktanirnar á heimasíðu flokksins.

Nú þegar líður að lokum þessa þingvetrar þéttist dagskrá okkar þingmanna, leitast er við að nýta þingfundi og nefndarfundi sem best. Mörg mál eru á dagskránni og til umræðu inn í nefndum. Þrátt fyrir þessa stöðu verður gert hlé á þingstörfum föstudaginn 24. maí fram yfir forsetakosningar. Er það gert með sama hætti og fyrir sveitarstjórnarkosningar en tilgangurinn er að þingstörfin trufli ekki eða hafi áhrif á umræðu og umfjöllun vegna forsetakosninganna.

Á síðasta rafræna fundi þingflokksins með ykkur kom fram ósk um yfirlit yfir samþykkt stjórnarmál frá okkar ráðherrum. Við höfum tekið málin saman og má nálgast þau hér.

Við í þingflokknum viljum halda áfram virku samtali og boðum hér með til fundar með flokksfólki á Teams nk. mánudag, 13. maí, kl. 20.00. Á dagskrá fundarins eru tvö stór mál, frumvarp um lagareldi og þingsályktun um samgönguáætlun til ársins 2038.

Þeir sem hafa ekki áður tekið þátt í STÖRFUM ÞINGSINS – Samtal þingflokksins við grasrótina verða nauðsynlega að skrá sig hér:

Störf þingsins – Rafrænn fundur

Hlekkur á fundinn verður sendur út skömmu fyrir fund.

Lög um lagareldi

Markmið laga um lagareldi er ætlað að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu lagareldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Leitast skal við að fyrirbyggja hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og vistkerfi þeirra ásamt því að tryggja hagsmuni þeirra sem nýta villta nytjastofna. Til að ná því markmiði skal tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í lagareldi standist ströngustu staðla og kröfur sem gerðir eru til lagareldis.

Umræðan hefur verið mikil í kringum málið en þá aðallega hvað varðar tímalengd leyfisins, hvort það skuli vera tímabundið eða ótímabundið. Þingmenn hafa komið áherslum Framsóknar skýrt fram í umfjöllun um málið þar sem því hefur verið komið við en við munum fara betur yfir málið á fundinum.

Samgönguáætlun

Samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 er lögð fram með hliðsjón af fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Áætlað er að fram til ársins 2038 skuli unnið að samgöngumálum í samræmi við:

a. stefnu í samgöngumálum og helstu markmið sem vinna skuli að,

b. skilgreiningu á grunnneti samgöngukerfisins sem nái til alls landsins og verði ætlað að tryggja landsmönnum greiðar samgöngur,

c. áætlun um fjáröflun til samgöngumála,

d. yfirlit um útgjöld til allra helstu þátta í rekstri samgöngustofnana, svo og viðhalds, öryggismála og nýframkvæmda á sviði flugmála, siglingamála og vegamála.

Áætlunin taki mið af og verði hluti af heildstæðri samþættri stefnu í samgöngumálum, húsnæðismálum, skipulagsmálum, byggðamálum og málefnum sveitarfélaga og gerð í samræmi við samþykktar áætlanir á vegum Alþingis og ríkisstjórnar.

Þingsályktunin er til umfjöllunar í umhverfis og samgöngunefnd en stefnt er að því að hafa drög að nefndaráliti klárt þegar þing kemur aftur saman eftir þinghlé vegna forsetakosninga.

Við munum fara yfir stöðu verkefnisins og svara spurningum eftir bestu getu.

Vona að sem flestir sjái sér fært um að mæta fyrir framan skjáinn nk. mánudagskvöld og taka þátt í samtalinu en þessi og mögulega fleiri mál munum við ræða á fundinum.

Hlakka til að sjá ykkur og hvet ykkur í leiðinni til að hnippa í aðra félaga okkar í Framsókn og minna á fundinn.

Með kveðju frá Austurvelli,
Ingibjörg Isaksen