Categories
Fréttir

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Deila grein

25/06/2024

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Kæru félagar! 154 löggjafarþingi lauk rétt eftir miðnætti sl. laugardag og þingfundum frestað til 10. september. Þessi þingvetur var afkastamikill og fjölmörg frumvörp voru samþykkt á lokasprettinum. Við höfum tekið saman yfirlit yfir samþykkt stjórnarmál frá ráðherrum okkar sem má nálgast hér.  

Í fyrsta sinn er mörkuð langtímastefna í húsnæðismálum, þar sem jafnframt er stuðlað að skilvirkari og bættri stjórnsýslu. Öllum á að vera tryggt aðgengi að góðu og öruggu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði sem hentar ólíkum þörfum hvers og eins.  

Alþingi samþykkti breytingu á listamannalaunum, fjölgun launasjóða sem starfslaun eru veitt úr og fjölgun árlegra úthlutunarmánaða. Starfslaunamánuðum verður fjölgað úr 1.600 í 2.490 á 4 árum. Einnig verða til tveir nýir sjóðir; Launasjóði kvikmyndahöfunda og Vegsemd, sjóður listamanna 67 ára og eldri. „Ég er ákaflega glöð með að samstarfsfólk mitt í þinginu hafi séð tækifærin sem felast í því að fjárfesta í listafólkinu okkar. Það gleymist oft í þessari umræðu að listir auðga ekki bara andann heldur eru þær líka tekjulind,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.  

Eins voru á  Alþingi samþykkt viðamikil mál s.s. um sölu ríkiseigna, breytt lög um örorkulífeyri, auknar heimildir lögreglu til rannsókna og mannréttindamál. Lögum um örorkulífeyri var breytt með áherslu á sérstaka hvata fyrir lífeyrisþega til atvinnuþátttöku, aukinn stuðningur við fólk í endurhæfingu og hærri lífeyrisgreiðslur. Mannréttindastofnun Íslands verður sett á fót sem sjálfstæð stofnun beint undir Alþingi. Samþykkt voru lög um gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum með framlagi úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og hertar reglur vegna notkunar rafhlaupahjóla m.a. varðandi aldurstakmark á notkun þeirra.  

Það er að mörgu að taka og til þess að fara enn betur yfir málin og svara spurningum sem eflaust brenna á ykkur varðandi hin ýmsu mál boðum við í þingflokknum til fundar með flokksfólki á Teams nk. fimmtudag, 27. júní, kl. 20.00. Á fundinum förum við yfir þinglokin og hvað stendur út af borðinu.  

Þeir sem hafa ekki áður tekið þátt í STÖRFUM ÞINGSINS – Samtal þingflokksins við grasrótina verða nauðsynlega að skrá sig hér:

Störf þingsins – Rafrænn fundur

Hlekkur á fundinn verður sendur skömmu fyrir fund.  

Eldhúsdagsumræður á Alþingi fóru fram 12. júní og voru ræðumenn Framsóknar Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Ágúst Bjarni Garðarsson. Ræður þeirra mæltust mjög vel fyrir og sagði Lilja Rannveig m.a.: „Með Framsókn í fararbroddi í íslenskum stjórnmálum hefur samfélagið okkar náð að blómstra. Við trónum nálægt toppum á listum sem mæla jafnrétti kynjanna eða stöðu hinsegin fólks. En við sjáum bakslag í jafnréttisbaráttunni á heimsvísu og við þurfum stöðugt að vera á verðinum til að tryggja mannréttindi. Við búum á landi þar sem er einna öruggast að vera kona og þar sem eru mestu tækifærin fyrir ungt fólk. Það er vegna þeirra aðstæðna sem við sem samfélag höfum skapað, en það má þó alltaf gera betur.“ Ágúst Bjarni minnti á hversu vel hefur verið haldið utan um heilbrigðismálin: „Markvisst hefur verið unnið að því að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Eftir áralangt samningsleysi hefur nú m.a. verið samið við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara. Með þessum samningum lækkar greiðsluþátttaka einstaklinga sem hefur hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu.“  

Vona að sem flestir sjái sér fært um að mæta fyrir framan skjáinn nk. fimmtudagskvöld og hvet ykkur til að hnippa í aðra félaga okkar í Framsókn og minna á fundinn.  

Með kveðju,  
Ingibjörg Isaksen