Categories
Fréttir

„Markvisst hefur verið unnið að því að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag“

Deila grein

13/06/2024

„Markvisst hefur verið unnið að því að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag“

Ræða Ágústs Bjarna Garðarssonar, alþingismanns, á eldhúsdegi á Alþingi miðvikudaginn 12. júní 2024:

„Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Á Íslandi er gott að búa. Hér er mikill hagvöxtur, hér er hátt atvinnustig og kaupmáttur heimilanna hefur farið vaxandi ár eftir ár. Allt skiptir þetta máli og þegar ég horfi á stóru myndina er ég í raun þakklátur fyrir okkar góða samfélag sem vissulega hefur þurft að glíma við áskoranir síðustu misseri líkt og samfélög um allan heim.

Utanaðkomandi þættir sem við höfum litla sem enga stjórn á hafa haft óvenjumikil áhrif á okkar daglega líf. Verkefni stjórnvalda er að bregðast við með skynsamlegum aðgerðum sem miða að því að milda áhrifin á samfélagið og létta þeim byrðar sem þyngstar bera þær nú um stundir.

Hér ætla ég að nefna sérstaklega nýgerða langtímakjarasamninga. Þeir auka á fyrirsjáanleika þar sem markmiðið er að ná niður vöxtum og verðbólgu samhliða því að verja lífskjör og velferð hér á landi. Þar skipti aðkoma ríkisins og samstaða samningsaðila við borðið miklu máli. Við gerð þessara samninga var lögð sérstök áhersla á vaxandi velsæld og stuðning við barnafjölskyldur, til að mynda með gjaldfrjálsum skólamáltíðum, hækkun barnabóta, sérstökum vaxtastuðningi, stuðningi við leigjendur, hærri fæðingarorlofsgreiðslum og svo mætti áfram telja. Ég hef sjálfur fengið skilaboð og símtöl frá fólki sem segir að þessar aðgerðir hafi skipt raunverulegu máli, og þær skiptu raunverulegu máli.

Markvisst hefur verið unnið að því að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Eftir áralangt samningsleysi hefur nú m.a. verið samið við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara. Með þessum samningum lækkar greiðsluþátttaka einstaklinga sem hefur hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu. Að draga úr greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustu er liður í því að jafna aðgengi að þjónustunni sjálfri. Á þeim forsendum var styrkur til almennra tannréttinga tæplega þrefaldaður og hækkaði úr 150.000 kr. í 430.000 kr. þann 1. september síðastliðinn. Við þessa breytingu lækkar kostnaðarþátttaka almennings í almennum tannréttingum um 500 milljónir á ári.

Hér mætti halda áfram að telja. Risastór skref hafa verið tekin í þágu menningar í landinu og það hefur sýnt sig að ógrynni tækifæra felast í því að efla kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Verkefni af þessum toga eru atvinnu- og gjaldeyrisskapandi og landið öðlast kynningu erlendis sem getur skilað sér í jákvæðri ímynd og auknum gjaldeyristekjum vegna komu ferðamanna hingað til lands. Hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hefur lagt ríka áherslu á uppbyggingu verk- og starfsnáms og stefnt er að því að byggja 12.000 fermetra fyrir námið um land allt, auk þess sem nýr Tækniskóli mun rísa í Hafnarfirði.

Verðbólga hefur lækkað en hún er enn of há og það er verkefni okkar stjórnmálamanna að sjá til þess að hún lækki enn frekar. Það gerum við með raunhæfum aðgerðum, svo sem á framboðshlið húsnæðis. Þar komum við að stöðunni á húsnæðismarkaði en þar eru að mínu mati áskoranir sem hægt er að leysa hratt og örugglega ef viljinn er til staðar og þar þurfa ríki og sveitarfélög að taka höndum saman.

Hér þarf áfram, með góðum aðgerðum hins opinbera sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum, að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði og skapa umhverfi svo að fýsilegt sé fyrir framkvæmdaraðila á almennum markaði að byggja íbúðir fyrir fólk en ekki fjárfesta. Fólki á Íslandi er að fjölga hratt og það er fyrirséð að hér þurfi að byggja meira. Við vorum á réttri leið en það hefur komið bakslag á síðustu árum. Það má helst rekja til skorts á byggingarhæfum lóðum. Þar hefur höfuðborgin á vakt Samfylkingarinnar borið mesta ábyrgð á núverandi stöðu. Seðlabankinn hefur boðið upp á eitraðan kokteil með sinni stefnu. Hátt vaxtastig, sem m.a. eykur kostnað við byggingu húsnæðis og dregur úr vilja framkvæmdaraðila, ásamt hertum lánþegaskilyrðum hafa gert kaupendum erfiðara um vik að stíga skref inn á fasteignamarkaðinn. Þannig hefur verið hlaðið í snjóhengju kynslóða sem bíða eftir tækifæri til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Aðgerðir Seðlabanka Íslands eru því þvert á það sem við þurfum nú um stundir.

Virðulegur forseti. Við höfum þann eiginleika að vera tiltölulega bjartsýn þjóð. Áfram munum við sýna að þegar þörf er á þá munum við standa saman. — Góðar stundir.“