Categories
Fréttir

Bregðast verður við tilkomu nýrra verslunarhátta

Deila grein

14/03/2023

Bregðast verður við tilkomu nýrra verslunarhátta

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður frumvarps til laga um um breytingu á áfengislögum, um afnám opnunarbanns á frídögum og hefur hún mælt fyrir frumvarpinu á Alþingi.

„Með frumvarpi þessu er lagt til að 2. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 6. gr. a áfengislaga falli brott en samkvæmt ákvæðunum skulu áfengisútsölustaðir vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst. Af ákvæðunum leiðir að áfengisútsölustöðum er óheimilt að hafa opið á sunnudögum og öðrum tilgreindum dagsetningum.

Slíkt bann við opnunartíma staða sem selja áfengi og sölu frá framleiðslustað samræmist ekki tíðaranda samfélagsins,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Breytingin sem lögð er til með frumvarpi þessu stuðlar að frelsi til að veita og sækja þjónustu á framangreindum dögum. Með tilkomu nýrra áfengisverslana, sérstaklega netverslana, er talið að veita þurfi áfengisútsölustöðum rýmri heimildir til að bregðast við tilkomu nýrra verslunarhátta. Frumvarp þetta gerir t.d. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins auðveldara að opna dyr sínar fyrir neytendum þegar þeim hentar best.

Að mati flutningsmanna er eðlilegt að áfengisútsölustaðir hafi rétt til að ákveða opnunartíma án þess að það sé skilyrt í lögum. Breytingin sem lögð er til með frumvarpi þessu felur einungis í sér að heimilt verður að hafa áfengisútsölustaði á fyrrgreindum dagsetningum opna, ekki er um skyldu að ræða. Það er talið vera í samræmi við sambærilegar reglur annars staðar á Norðurlöndum. Opnunartími ríkisrekinna áfengisverslana á Norðurlöndunum er almennt ákveðinn með öðrum hætti en lagasetningu.

Stjórnir, reglugerðir og ákvarðanir ráðuneyta ráða för við slíka ákvarðanatöku. Slíkt veitir þeim verslunum rýmra frelsi til að ráða sínum opnunartíma og breyta honum ef ástæða er talin vera til þess. Sem dæmi má nefna að í Svíþjóð er opnunartími hjá Systembolaget ákveðinn af stjórn félagsins og í Finnlandi er opnunartími Alko ákveðinn með reglugerð ráðherra.

Opnunarbann áfengisútsölustaða á þessum dagsetningum kann að leiða til þess að einstaklingar leiti annarra leiða til að nálgast vörurnar á þeim tíma. Þær leiðir geta m.a. verið áfengiskaup af aðilum sem framleiða og selja áfengi án tilskilinna leyfa og í bága við lög og reglur, en ákveðin áhætta getur falist í vörum sem keyptar eru á þann hátt þar sem þær eru ekki framleiddar í samræmi við reglur og viðurkennda staðla. Einnig eru slíkar vörur almennt sterkari, þ.e. innihalda meira magn af vínanda, og geta verið skaðlegar heilsu fólks.

Að mati flutningsmanna er frumvarpið til þess fallið að áfengi verði áfram selt í öruggu umhverfi þar sem eftirlit er með aldurstakmörkum og stuðlað að forvörnum. Þá telja flutningsmenn að mikilvægt sé að blása til stórsóknar í forvörnum meðal annars með því að auka það fjármagn sem eyrnamerkt er forvörnum og setja upp áætlun sem endurmetin verði með reglubundnum hætti.

Meginefni frumvarpsins snýr að því að auka þjónustu við neytendur og að enn sé viðhaft tilgreint eftirlit með sölu áfengis,“ sagði Hafdís Hrönn.