Categories
Fréttir

Gæti ein meðferð sparað ævilanga umönnun?

Deila grein

14/03/2023

Gæti ein meðferð sparað ævilanga umönnun?

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, vakti máls í störfum þingsins á byltingunni í lyfjavísindum sem nú á sér stað í heiminum með gena- og frumumeðferðum. Tók hún þátt í pallborði sem formaður velferðarnefndar Alþingis um þau tækifæri og áskoranir sem felast í þessum meðferðum.

„Sannarlega áhugavert viðfangsefni. Sérhæfð gena, frumu eða vefjameðferð, á sjaldgæfum jafnt sem algengum sjúkdómum geta umbreytt lífi sjúklinga og kalla á alveg nýja hugsun í heilbrigðiskerfinu. Það þarf að endurhugsa verkferla og mat á ávinningi – út frá siðferði, fræðum og fjármögnun,“ sagði Líneik Anna.

„Áskoranirnar í ákvarðanatöku í þessum efnum eru ekki í fjarlægri framtíða, þær eru að mæta okkur hér og nú. Það sem mér er efst í huga eftir ráðstefnuna er mikilvægi þess að íslenskt samfélag og íslenska heilbrigðiskerfið sé virkur þátttakandi í breytingunum.

Í þessu verkefni álít ég að samvinna norðurlandanna sé algjör forsenda árangurs, til að greina tækifærin, meta ávinning, forgangsraða, skipta sérhæfðum verkefnum og samræma verklag. Samvinna í 28 milljóna norrænu samfélagi ætti að geta náð utan um verkefnið bæði faglega og fjárhagslega meðan árangurinn gæti hreinlega orðið tilviljanakenndur ef við vinnum hvert í okkar horni.“

„Við Íslendingar höfum allt að vinna og líka ýmsu að miðla inn í svona samstarf eins og góðri þekkingu á erfðaefni íslensku þjóðarinnar.

Ákvörðun um meðferðir af þessu tagi getur þurft að byggja á miklu breiðara heilsutæknilegumati en við hefðbundnar lyfjameðferðir og meðferðin sjálf kallar oft á þverfaglegt samtarf. Gæti ein meðferð sparað ævilanga umönnun?,“ sagði Líneik Anna að lokum.