Categories
Fréttir

Bætum verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa

Deila grein

14/03/2023

Bætum verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í júní 2023.“

„Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ásgerði K. Gylfadóttur um heimilisofbeldismál (452. mál á 149. löggjafarþingi) kemur fram mikill munur á fjölda heimilisofbeldismála sem skráð voru í málaskrá ákæruvaldsins á tímabilinu 1. janúar 2015 til 3. janúar 2019 eftir landshlutum. Þá segir að nýjar verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála hafi reynst vel, samstarf við fagaðila hafi aukist og þolendum sé tryggð betri þjónusta.

Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldið enda gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hver annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til þess að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum. Þótt verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld þarf samstarfið einnig að verða formfast í hina áttina, þ.e. með tilkynningum félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu og með samstarfi þeirra á milli að frumkvæði annarra yfirvalda. En til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti, með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi, þarf skýrari forvirkar lagaheimildir til upplýsingamiðlunar. Allt samráð milli stofnana samfélagsins þarf að eiga sér stað með þátttöku og samþykki brotaþola. Þegar ástæða er til að ætla að barn hafi orðið vitni að heimilisofbeldi eða orðið þolandi þess þarf þó að tryggja að skilyrði um þátttöku og samþykki brotaþola komi ekki í veg fyrir inngrip stjórnvalda sem sé andstætt hagsmunum barnsins. Kanna þarf hvort rýmka þurfi og skilgreina betur tilkynningarskyldu stjórnvalda, sem hafa afskipti af málum barna, til barnaverndarnefndar.

Markmiðið með þingsályktunartillögu þessari er að núverandi kerfi verði endurskoðað með það fyrir augum að einfalda barnaverndaryfirvöldum, félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að miðla upplýsingum sín á milli og til lögreglu.“