Categories
Fréttir

„Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar“

Deila grein

25/10/2022

„Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi störf óháð staðsetningu, í störfum þingsins, í framhaldi af sérstakri umræðu hennar í liðvinni viku við fjármálaráðherra.

„Í því ljósi er sérstaklega ánægjulegt að í dag var tilkynnt um flutning nýrra verkefna til starfsstöðvar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á Akureyri. Fimm opinber sérfræðistörf, þar af eitt stjórnunarstarf, flytjast þangað og stofnað verður nýtt teymi um brunabótamat,“ sagði Líneik Anna.

Framvegis verður 21 stöðugildi á starfsstöð HMS á Akureyri. Breytingarnar eru hluti af endurskipulagningu eftir að verkefni tengd fasteignaskrá voru færð til HMS í fyrra. Starfsfólk sem áður sinnti þessum verkefnum er komið í önnur störf.

„Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti breytinguna á Akureyri rétt í þessu. Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga sérhæfðum opinberum störfum á landsbyggðinni og í takt við stefnu HMS um öfluga starfsemi á nokkrum stöðum um landið,“ sagði Líneik Anna.

„Ég fagna því heils hugar að opinber störf færist á landsbyggðina. Það er mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt að fjölbreytt, opinber störf dreifist um landið allt. Það verður gert eftir ýmsum leiðum, t.d. með því að efla starfsstöðvar opinberra stofnana á landsbyggðinni, flytja sérhæfð störf eða auka tækifæri til að vinna störf óháð staðsetningu. Markviss vinna á þessu sviði samhliða stöðugri eflingu innviða gefur íbúum landsins raunverulegt val um búsetu. Reynslan af flutningi opinberra starfa og verkefna er góð. Áfram veginn,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Ræða Líneikar Önnu á Alþingi:

„Virðulegi forseti.

Í síðustu viku ræddi ég hér í sérstakri umræðu við hæstv. fjármálaráðherra um störf óháð staðsetningu, dreifingu opinberra starfa um landið og mikilvægi þess að sérhæfð störf verði til um land allt. Í því ljósi er sérstaklega ánægjulegt að í dag var tilkynnt um flutning nýrra verkefna til starfsstöðvar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á Akureyri. Fimm opinber sérfræðistörf, þar af eitt stjórnunarstarf, flytjast þangað og stofnað verður nýtt teymi um brunabótamat. Framvegis verður því 21 stöðugildi á starfsstöðinni á Akureyri. Breytingarnar eru hluti af endurskipulagningu eftir að verkefni tengd fasteignaskrá voru færð til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Störfin fimm verða öll auglýst á næstu dögum. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti breytinguna á Akureyri rétt í þessu. Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga sérhæfðum opinberum störfum á landsbyggðinni og í takt við stefnu HMS um öfluga starfsemi á nokkrum stöðum um landið. Á Sauðárkróki eru nú 27 störf við brunavarnir og einnig er þar þjónustuver, bakvinnsla og umsýsla með greiðslum húsnæðisbóta. Þá eru einnig starfsstöðvar í Borgarnesi og Reykjavík. Ég fagna því heils hugar að opinber störf færist á landsbyggðina. Það er mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt að fjölbreytt, opinber störf dreifist um landið allt. Það verður gert eftir ýmsum leiðum, t.d. með því að efla starfsstöðvar opinberra stofnana á landsbyggðinni, flytja sérhæfð störf eða auka tækifæri til að vinna störf óháð staðsetningu. Markviss vinna á þessu sviði samhliða stöðugri eflingu innviða gefur íbúum landsins raunverulegt val um búsetu. Reynslan af flutningi opinberra starfa og verkefna er góð. Áfram veginn.“